Enski boltinn

Fyrrum framherji Liverpool dæmdur í fangelsi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Saunders reyndi fyrir sér í þjálfun en hefur síðustu ár unnið í sjónvarpi.
Saunders reyndi fyrir sér í þjálfun en hefur síðustu ár unnið í sjónvarpi. vísir/getty
Dómarinn í máli sjónvarpsmannsins Dean Saunders, sem meðal annars lék með Liverpool, lét Saunders heyra það og sagði hann vera hrokafullan er hann gaf honum tíu vikna fangelsisdóm.

Saunders var stöðvaður á bíl sínum þann 10. maí síðastliðinn og neitaði að blása er lögreglan vildi athuga hvort hann væri ölvaður. Saunders sagðist hafa fengið sér tvo kalda á veðreiðum.

„Í þessum réttarhöldum hefur þú verið hrokafullur. Þú ert maður sem telur þig vera hafinn yfir lögin þar sem þú ert frægur. Það er ekki svo,“ sagði dómarinn grjótharður.

Lögreglumennirnir sem handtóku hann sögðu að Saunders hefði verið ofurölvi og myndskeið af öryggismyndavélum styðja þær fullyrðingar.

Saunders fær nú að dúsa í steininum í tíu vikur og má þess utan ekki keyra í 30 mánuði.

Þessi fyrrum framherji í enska boltanum er orðinn 55 ára gamall. Flesta leiki spilaði hann með Aston Villa og Derby en hann lék einnig með Liverpool, Benfica og fleiri liðum. Hann skoraði 190 mörk í 618 leikjum á ferlinum. Landsleikirnir fyrir Wales voru 75 talsins og þar skoraði hann 22 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×