Erlent

Fyrrverandi forseti Kirgistan ákærður fyrir morð

Kjartan Kjartansson skrifar
Atambajev streittist við handtöku í tvo sólahringa áður en hann gafst loks upp.
Atambajev streittist við handtöku í tvo sólahringa áður en hann gafst loks upp. Vísir/EPA
Yfirvöld í Kirgistan hafa ákært Almazbek Atambajev, fyrrverandi forseta landsins, fyrir morð og ráðabrugg um valdarán. Atamabayev var handtekinn í rassíu lögreglunnar í síðustu viku þar sem einn lögreglumaður lét lífið.

Hörð átök hafa geisað á milli Atambajev og Sooranbai Jeenbekov, núverandi forseta, undanfarið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Atambayev var forseti frá 2011 til 2017 en þá tók Jeenbekov við af honum. Jeenbekov hafði verið í læri hjá Atambajev en samband þeirra stirðnaði fljótt eftir valdaskiptin.

Morðákæran tengist lögregluaðgerðinni þegar Atambajev var handtekinn. Rassía lögreglunnar stóð yfir í tvo sólahringa. Einn lögreglumaður féll og stuðningsmenn fyrrverandi forsetans tóku sex þeirra í gíslingu. Áttatíu manns slösuðust í aðgerðum lögreglunnar og 53 til viðbótar voru fluttir á sjúkrahús.

Atambajev er sakaður um að hafa borið vopn ólöglega, myrt sérsveitarmann, tekið gísla og skipulagt fjöldaóeirðir. Yfirmaður öryggissveita Kirgistan fullyrðir að Atambajev hafi ætlað að skipuleggja valdarán. Tvær byltingar hafa verið gerðar í landinu á undanförnum tveimur áratugum.

Kirgíska þingið svipti Atambajev friðhelgi í júní til að hann þyrfti að verða við stefnu í máli sem tengist því að téténskum glæpaforingja var sleppt ólöglega úr haldi í landinu árið 2013. Atambajev er jafnframt sakaður um spillingu en hann neitar sök. Hann neitaði að gefa sig fram við lögreglu til að gefa skýrslu sem leiddi til rassíunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×