Þá hafa 25 tekið sér umhugsunarfrest. Fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við kaupendur í dag og greinilegt var að málið er mjög umdeilt meðal þeirra. Sigurður Ingi Kristinsson er einn þeirra og var hann að flytja inn þegar fréttastofa hitti á hann.
„Við skrifuðum undir skilmálabreytingarnar af því að við töldum okkur tilneydd til að flytja. Við vorum búin að selja ofan af okkur,“ sagði Sigurður Ingi.

Eins og gefur auga leið var þetta ansi mikið sjokk að fá þessa hækkun og Sigurður segir hækkunina hafa valdið mörgum svefnlausum nóttum.
Hann er þó ánægður með að hafa fengið lækkun á aukagreiðslunni.
„Það létti mikið yfir mér að fá lækkun niður í 4,4 milljónir króna úr sjö,“ bætti hann við.
Fréttastofa ræddi einnig við Ómar Árna Kristjánsson sem hefur ásamt eiginkonu sinni búið í húsbíl frá því hann átti að fá íbúð sína afhenta og hann sagðist í dag ekki ætla að skrifa undir skilmálabreytingu Félags eldri borgara heldur bíða eftir niðurstöðu dómsmálsins sem þingfest var í dag. Hann vissi að fleiri væru sömu skoðunar. Ingvi Þór Hafsteinsson er annar kaupandi sem rætt var við og sagðist hann vera afar sáttur við sáttatilboð Félags eldri borgara þegar fréttastofa ræddi við hann.