Í júnílok tilkynnti sjávarútvegsráðuneytið um aukningu á makrílkvóta íslenskra fiskiskipa. Kvótinn var aukinn úr tæplega 108 þúsund tonnum í rúm 140 þúsund tonn. Það er um 80 þúsund tonn umfram ráðgjöf vísindamanna.
Chris Davies, þingmaður frjálslyndra á Evrópuþinginu og formaður fiskveiðinefndar þingsins, lýsir yfir áhyggjum af því að Ísland hafi tekið þessa ákvörðun einhliða.
Sjá einnig: „Segir íslensk stjórnvöld sýna „græðgi og ábyrgðarleysi“ vegna auking makrílkvóta.“
Í samtali við skoska vikublaðið Shetland Times segir Davies að aðgerðir Íslands séu gráðugar og óábyrgar. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, hafnar ásökunum þingmannsins.
„Þessi ákvörðun snýst fyrst og fremst að standa vörð um íslenska hagsmuni,“ segir Kristján Þór. „Það að þingmaður á Evrópuþinginu sýni því lítinn skilning kemur hvorki á óvart og hefur lítið vægi í mínum huga. Ég vísa algerlega á bug og til föðurhúsanna tali um að Ísland sýni ábyrgðarleysi eða sýni skort á samningsvilja.“
Davies segir að vinna þurfi saman til að tryggja sjálfbærar veiðar og að vinaþjóð eigi ekki að haga sér svona. Semja þurfi um úthlutun kvóta ásamt öðrum strandríkjum. Kristján Þór bendir hinsvegar á að Íslandi sé haldið utan slíkra viðræðna.
„Það eru Noregur, Færeyingar og Evrópusambandið sem hafa haldið Íslandi utan samninga um þennan mikilvæga stofn. Það eru því aðrir sem hafa þverskallast og ekki sýnt samningsvilja. Ég held að Evrópusambandið sé ekki mjög þekkt í því að sýna ábyrga fiskveiðistjórnun.“
Vísar gagnrýni um græðgi og ábyrgðarleysi Íslands til föðurhúsanna
Tengdar fréttir
Makríllinn formlega kvótasettur
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um veiðar á makríl með stoð í nýsamþykktum lögum Alþingis um um kvótavæðingu makríls.
Segir íslensk stjórnvöld sýna „græðgi og ábyrgðarleysi“ vegna aukins makrílkvóta
Formaður fiskveiðinefndar Evrópuþingsins segir að einhliða aukning íslenskra stjórnvalda á makrílkvóta íslenskra skipa sýni "græðgi og ábyrgðarleysi“ íslenskra stjórnvalda.