Sport

Fannst látinn morguninn eftir fyrsta leikinn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Archie Bruce
Archie Bruce Mynd/Twitter/Batley Bulldogs RLFC
Batley Bulldogs gaf ungum nýliða sitt fyrsta tækifæri í leik á laugardaginn og sá hinn sami geislaði af gleði eftir leik. Aðeins tuttugu klukkutímum seinna var líf hans á enda.

Ungur leikmaður sem var að stíga sín fyrstu spor með liði Batley Bulldogs fannst látinn á hótelherbergi í Toulouse í suður Frakklandi.

Archie Bruce lék sinn fyrsta leik með Batley Bulldogs daginn áður eða aðeins tuttugu klukkutímum áður en hann fannst. Batley Bulldogs tilkynnti um lát leikmanns síns.

„Fjölskylda Archie var látin vita. Batley Bulldogs, Rugby Football Leagu og RFL Benevolent sjóðurinn munu styðja við fjölskyldu hans,“ segir í tilkynningu frá Batley Bulldogs.



Rannsókn er farin í gang í Frakklandi en í fyrstu fréttum kom ekkert fram um dánarorsök. „Bruce fjölskyldan hefur beðið um að fá að syrgja í friði á þessum erfiða tíma,“ sagði Kevin Nicholas, stjórnarformaður Batley Bulldogs í samtali við BBC.

Archie Bruce spilaði áður með áhugamannafélaginu Dewsbury Moor en var þarna að fá sitt fyrsta tækifæri með atvinnumannafélagi. Hann kom inná sem varamaður í tapleik á móti franska félaginu Toulouse á laugardaginn.

Archie Bruce var í framtíðarplönum Batley Bulldogs en félagið var meira að undirbúa hann fyrir 2020 tímabilið en ekki 2019 tímabilið. Þjálfarinn Matt Diskin ákvað að leyfa honum að fá fyrsta leikinn þökk sé áhuga hans og orku á æfingum.

Í grein Guardian kemur fram að Archie Bruce hafi átt nokkru flott hlaup með boltann í leiknum og það sáu allir eftir leikinn hvað hann var ánægður með að hafa fengið að spila.

Archie Bruce er lýst sem gáfuðum, kurteisum, fyndnum og sérstaklega viðkunnanlegum strák. Það er því mikil sorg í herbúðum Batley Bulldogs eftir þessar hræðilegu fréttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×