Erlent

Hamstra lyf í stórefldum undirbúningi fyrir Brexit án samnings

Kjartan Kjartansson skrifar
Sajid Javid, fjármálaráðherra Bretlands.
Sajid Javid, fjármálaráðherra Bretlands.
Breska ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja 2,1 milljarð punda, jafnvirði 312 milljarða íslenskra króna, í undirbúning fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings. Fénu verður varið í að hamstra lyf, ráða fleiri landamæraverði og stærstu auglýsingaherferð á friðartímum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagst ætla að draga Bretland úr Evrópusambandinu án samnings 31. október nema sambandið fallist á að semja upp á nýtt um útgönguna. Sajid Javid, fjármálaráðherra hans, tilkynnti um aukið fé til undirbúnings fyrir útgönguna í dag.

„Við viljum fá góðan samning sem afnemur ólýðræðislegu baktrygginguna. En ef við fáum ekki góðan samnings verðum við að ganga út án hans,“ sagði Javid og vísaði til írsku baktryggingarinnar svonefndu, ákvæði samningsins sem á að koma í veg fyrir að koma þurfi upp hefðbundnu landamæra- og tollaeftirliti á mörkum Írlands og Norður-Írlands.

Alls hefur ríkisstjórnin nú úr um 6,3 milljörðum punda, jafnvirði um 937 milljarða króna, að spila til undirbúnings Brexit án samnings. Af þeim fjármunum verður 434 milljónum punda varið í að tryggja að lyfjaforði verði í landinu og að hægt verði að flytja inn lækningarvörur. Þá verður fjárfest í flutningsgetu og geymslurými fyrir þær.


Tengdar fréttir

Johnson vill nýjan samning

Boris Johnson, nýr forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að það væru góðar líkur á því að hægt væri að gera nýjan útgöngusamning við Evrópusambandið og í leiðinni fá góðan fríverslunarsamning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×