Sport

Sagði frá því þegar henni var nauðgað af annarri íþróttastjörnu þegar hún var sautján ára gömul

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Wagner vann til verðlauna á ÓL í Sochi 2014.
Ashley Wagner vann til verðlauna á ÓL í Sochi 2014. Getty/y Scott Halleran
Ashley Wagner var mjög farsæll listhlaupari á skautum og varð bæði bandarískur meistari sem og verðlaunahafi á bæði heimsmeistaramóti og Ólympíuleikum á sínum ferli.  

Ashley Wagner er núna 28 ára gömul og búin að setja skóna upp á hillu en í opinskáu viðtali við USA Today þá sagði frá því þegar henni var nauðgað þegar hún var sautján ára gömul. Nauðgarinn var stjórstjarna í skautaíþróttinni og landsliðsmaður eins og hún.

Ashley settist fyrir framan myndavél og sagði söguna af því þegar John Coughlin nauðgaði henni eftir partý í æfingabúðum bandaríska landsliðsins í Colorado Springs. Coughlin var þá 22 ára eða fimm árum eldri en hún.

Ashley Wagner er stærsta stjarnan úr heimi skautaíþróttarinnar sem segir frá kynferðislegri misnotkun á sínum keppnisferli en frægar eru allar skelfilegu sögurnar úr búðum bandaríska kvennalandsliðsins í fimleikum þar sem læknir liðsins, Larry Nassar, komst upp með kynferðisbrot sín í tugi ára.

Ashley Wagner var nú tilbúin, ellefu árum síðar, að setjast fyrir framan myndavél og segja frá því sem gerðist milli þeirra John Coughlin árið 2008. Viðtalið við Ashley Wagner má sjá hér fyrir neðan.





Ashley Wagner vann bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Sochi árið 2014 og silfur á heimsmeistaramótinu í Boston árið 2016. Hún varð alls þrisvar sinnum bandarískur meistari eða árin 2012, 2013 og 2015.

Ashley Wagner er önnur skautakonan sem segir frá kynferðismisnotkun John Coughlin. Hin er Bridget Namiotka sem keppti með John Coughlin í parakeppni frá 2004 til 2007. Namiotka sagði frá því á fésbókinni að Coughlin hefði misnotað hana í tvö ár en Bridget Namiotka keppti með honum frá 14 ára til 17 ára aldurs.

John Coughlin er ekki á lífi en hann framdi sjálfsmorð á heimili föður síns 18. janúar síðastliðinn. Coughlin varð tvöfaldur bandarískur meistari á sínum ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×