Skoðun

Þetta er ekki fyndið

Haukur Örn Birgisson skrifar
Til eru hópar í samfélaginu sem eiga undir högg að sækja. Þeir standa öðrum ekki jafnfætis þegar kemur að ýmsum réttindum, umfjöllun og virðingu. Í gegnum árin, áratugina og jafnvel aldirnar hafa þeir mátt þola níð, fordóma og óréttlæti af hálfu annarra. Með stöðugri baráttu sinni fyrir málstaðnum hefur þó flestum þeirra tekist að rétta hlut sinn. Baráttan skilar árangri.

Barátta og ofurviðkvæmni ganga samt sjaldnast hönd í hönd. Þótt þú standir í baráttu þá þýðir það ekki að allir séu á móti þér. Samsærið nær sjaldnast svo langt.

Skopmynd sem sýndi feitan og krumpaðan karlmann í kvennaklefa sundlaugar vakti um daginn hörð viðbrögð þeirra sem hafa sett baráttu transfólks á oddinn. Með myndinni var gert grín að nýjum lögum um kynrænt sjálfstæði. Formaður transfólks réði sér vart af vandlætingu og kallaði myndina „hræðsluáróður“ og gerði teiknaranum upp alls kyns annarlegar hvatir og þar með þeim lesendum sem brostu yfir myndinni. Það er stutt í að hugtakið „haturs­orðræða“ skjóti upp kollinum og löggan verði kölluð til.

Róum okkur nú aðeins! Mér fannst teikningin fyndin en ég skil vel að ekki öllum hafi fundist það. Það skiptir bara engu máli. Húmor verður aldrei skilgreindur og það fær enginn að ákveða fyrir aðra hvað telst fyndið. Þá er engum hollt að taka sjálfan sig of hátíðlega því fáir eru staddir á svo alvarlegum stað í lífinu að ekki megi skopast að því. Ég vil transfólki allt hið besta en það, eins og allir aðrir, verður að þola að gert sé grín að því, því mikið væri lífið nú leiðinlegt ef allir brandarar fjölluðu um lögfræðinga og Hafnfirðinga.




Skoðun

Sjá meira


×