Svein Holden lögmaður Hagen-fjölskyldunnar greindi frá því á blaðamannafundi í morgun að hinir ætluðu mannræningjar hafi sett sig í samband við fjölskylduna þann 8. júlí síðastliðinn eftir langt hlé. Þeir hafi lýst því yfir að Anne-Elisabeth væri á lífi, þó að fjölskyldunni hafi ekki borist staðfesting þess efnis, og veitt frekari upplýsingar um hvarf hennar.
Lögregla boðaði svo til blaðamannafundar vegna hvarfs Anne-Elisabeth klukkan tvö að norskum tíma í dag, eða klukkan tólf á hádegi að íslenskum tíma. Þar ítrekaði Brøske óbreytta afstöðu lögreglu, sem gaf það út í júní að Anne-Elisabeth hefði líklega verið myrt. Henni hafi þannig ekki verið rænt gegn lausnargjaldi heldur hafi mannránið jafnvel verið sett á svið. Holden gagnrýndi þessa stefnubreytingu lögreglu á sínum tíma.
„Eins og áður leggjum við áherslu á að við höfum engar sannanir fyrir því að hún sé látin og getum þar af leiðandi ekki útilokað möguleikann á því að hún sé á lífi,“ sagði Brøske.
„En við stöndum við ályktanir okkar frá því fyrr í sumar. […] Þegar hér er komið sögu, og þangað til það kemur fram trúverðug og nýleg sönnun fyrir því að hún sé á lífi, stendur lögregla við kenningar sínar um að við stöndum líklega frammi fyrir morði.“

Í byrjun ágúst hafði norska dagblaðið VG eftir heimildarmönnum sínum að Hagen-fjölskyldunni hefði borist ný lausnargjaldskrafa í júlí. Þá hefði eiginmaður hennar greitt yfir tíu milljónir norskra króna, um 136 milljónir íslenskra króna, gegn því að fá staðfestingu á því að hún væri á lífi. Slík staðfesting hefði ekki borist, þrátt fyrir greiðslurnar.
Holden sagði á blaðamannafundinum í morgun að fjölskyldan vænti þess nú að skrið komist á málið. Næsta útspil yrði hjá hinum meintu mannræningjum. Holden vildi ekki tjá sig um það hvenær síðast hefði verið haft samband við þá en upplýsti að öll samskipti færu fram á norsku. Ekkert væri þó hægt að fullyrða um hvort ræningjarnir væru norskir.
Í spilaranum hér að neðan má sjá upptöku af blaðamannafundi lögreglu í dag.