Innlent

Kerskáli þrjú verður endurræstur í byrjun september

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Birgir Olgeirsson skrifa
Frá álverinu í Straumsvík.
Frá álverinu í Straumsvík. Vísir/Arnar
Byrjað verður að endurræsa kerskála þrjú í álveri Rio Tinto í Straumsvík í september.

Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi álversins, segir í samtali við fréttastofu að fyrstu kerin verði ræst í byrjun september en þar á eftir verði nokkur ker ræst á degi hverjum. Kerin eru um 160 talsins og getur því tekið nokkra mánuði að ræsa þau öll og koma skálanum í fullan rekstur.

Slökkt var á einum af þremur kerskálum álversins þann 22. júlí. Var það gert vegna ljósboga sem myndaðist innan í einu kerinu en starfsfólk álversins hafði aldrei áður séð viðlíka ljósboga.

Bjarni Már segir að það hafi gengið vel að koma jafnvægi á rekstur í skálunum sem voru enn í rekstri og því hafi verið ákveðið að hefja endurræsingu. Endanlegt mat á fjárhagslegu tjóni af lokun skálans liggur ekki fyrir.

Síðast var kerskála lokað í tíu vikur árið 2006 en þá nam tjónið um fjórum milljörðum króna.


Tengdar fréttir

Í annað sinn í fimmtíu ára sögu álversins í Straumsvík sem kerskála er lokað

Stór hluti af álframleiðslu álversins í Straumsvík var stöðvaður í nótt eftir að einum af þremur kerskálum þess var lokað af öryggisástæðum. Ástæðan er sú að álverið hefur þurft að nota annað súrál en áður vegna umróts á heimsmörkuðum. Þetta er í annað skipti sem kerskála er lokað í álverinu síðan álframleiðsla hófst þar fyrir fimmtíu árum.

Landsvirkjun gæti orðið fyrir talsverðu tjóni dragist að kveikja á kerskálanum

Stjórnendur álversins í Straumsvík héldu upplýsingafund með starfsfólki álversins um stöðuna í morgun. Nýtt súrál kom í verksmiðjuna í gær og verður það unnið í kerskálum eitt og tvö á næstunni. Sérfræðingur í orkumálum segir stjórnendur álversins undir miklum þrýstingi að koma rekstri kerskála þrjú aftur í rekstur. Ef það dragist lengi geti það þýtt milljarða tjón fyrir verksmiðjuna og Landsvirkjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×