Íslenski boltinn

Ævintýralegur sigur Gróttu og Fjölnir bjargaði stigi á elleftu stundu í Njarðvík

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gróttu-menn fagna marki.
Gróttu-menn fagna marki. vísir/vilhelm
Topplið Fjölnis gerði óvænt jafntefli í Njarðvík er liðin skildu jöfn 1-1 í 16. umferð Inkasso-deildar karla en fimm leikir fóru fram í kvöld.

Fyrsta mark leiksins í Njarðvík skoraði Andri Fannar Freysson úr vítaspyrnu. Á 94. mínútu jafnaði hins vegar Ingibergur Kort Sigurðarson og lokatölur 1-1.

Fjölnir er áfram á toppi deildarinnar með 34 stig en liðið er þremur stigum á undan Þór. Njarðvík er í 11. sætinu, þremur stigum frá öruggu sæti.

Það var mikið fjör á Seltjarnarnesi er Grótta og vann Keflavík 4-3 í stórskemmtilegum knattspyrnuleik. Keflavík komst yfir með marki Frans Elvarssonar en Pétur Theódór Árnason jafnaði skömmu síðar.

Davíð Snær Jóhannesson kom Keflavík yfir en aftur jafnaði Pétur Theódór Árnason. Axel Freyr Harðarson kom svo Gróttu yfir á 68. mínútu en Adam Ægir Pálsson jafnaði stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Ekki var öll dramatík úti því í uppbótartíma var það Arnar Þór Helgason sem tryggði Gróttu sigur en markið kom á 94. mínútu. 4-3 sigur Gróttu.

Grótta er í þriðja sæti deildarinnar með 30 stig en liðið er stigi á eftir Þór sem situr í öðru sætinu. Keflavík er í sjöunda sætinu með 22 stig.

Afturelding gerði sér lítið fyrir og skellti Fram á heimavelli, 3-0. Roger Banet Badia skoraði eina mark fyrri hálfleiksins en þeir Jason Daði Svanþórsson og Georg Bjarnason gerðu mörkin í síðari hálfleik.

Með sigrinum er Afturelding í níunda sætinu með sautján stig, nú sex stigum frá fallsæti. Fram er í frjálsu falli en eftir góða byrjun er liðið í 6. sætinu með 23 stig.

Víkingur Ólafsvík og Leiknir gerðu svo 1-1 jafntefli í Ólafsvík. Árni Elvar Árnason kom Leikni yfir en lánsmaðurinn úr Eyjum, Guðmundur Magnússon, jafnaði metin fyrir Víking.

Víkingur er í fimmta sætinu með 24 stig en Leiknir er sæti ofar með tveimur stigum meira.

Úrslit og markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×