Yfirvöld í Kongó staðfestu í dag annað ebólutilfelli í borginni Goma í Austur-Kongó. Borgin er með yfir tvær milljónir íbúa. Fyrra tilfellið var staðfest fyrr í þessum mánuði.
Ekki eru talin tengsl á milli fyrsta tilfellisins og þess sem nú hefur verið staðfest. Maðurinn sem um ræðir kom til borgarinnar þann 13. júlí síðastliðinn, frá námusvæði í norðausturhluta Austur-Kongó. Þann 22. júlí fór hann að sýna ebólueinkenni og er nú í sóttkví í sérstakri meðferðarstöð við sjúkdómnum.
Almennt er talað um að einkenni sjúkdómsins geti komið fram frá tveimur og upp í 21 degi eftir að einstaklingur smitast.
Borgin Goma er á landamærum Austur-Kongó og Rúanda, en mikill fjöldi fólks ferðast í gegn um borgina sökum þess að þar er alþjóðaflugvöllur. Yfirvöld í landinu hafa lengi óttast að upp kæmi ebólutilfelli í borginni og nokkrum dögum eftir að fyrsta tilfellið var staðfest lýsti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna málsins.
Ebólufaraldurinn sem nú geisar í Austur-Kongó og Úganda er sá næstmannskæðasti í sögunni. Rúmlega þrjú þúsund manns hafa greinst með sjúkdóminn og hátt í átján hundruð hafa látið lífið. Faraldurinn átti upptök sín í Austur-Kongó og hefur staðið yfir síðan í ágústmánuði síðasta árs.
Erlent
Staðfesta annað tilfelli ebólu í milljónaborg í Austur-Kongó
Tengdar fréttir
Neyðarástandi á heimsvísu lýst yfir vegna ebólu
Ebólu faraldrinum, sem brotist hefur út í Austur-Kongó, var í dag lýst yfir sem neyðarástandi á heimsvísu af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eftir að vírusinn smitaðist til borgar þar sem tvær milljónir manna búa.
Ebólusmit í fjölmennri landamæraborg
Yfirvöld í Lýðveldinu Kongó hafa nú staðfest að ebólusmit hafi greinst í borginni Goma í austurhluta landsins í fyrsta sinn, en þar býr rúm ein milljón manna.
Sóttvarnalæknir bregst við vegna ebólufaraldurs í Austur-Kongó
Sóttvarnalæknir mun á næstu vikum ljúka við að endurskoða og uppfæra viðbragðsáætlanir og leiðbeiningar frá 2015 til viðbragðsaðila og almennings vegna ebólusjúkdómsins.