Innlent

Búið að afhenda lögreglu brunavettvang

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Formlegu slökkvistarfi lauk um ellefu leytið í kvöld.
Formlegu slökkvistarfi lauk um ellefu leytið í kvöld. Vísir
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur afhent lögreglu brunavettvanginn í Hafnarfirði en formlegu slökkvistarfi lauk um ellefu leytið í kvöld. Lögreglan mun þó ekki rannsaka tildrög eldsvoðans fyrr en í fyrramálið. Viðbragðsaðilar hafa reynt eftir bestu getu að tryggja rannsóknarhagsmuni.

Stefán Kristinsson, vakthafandi varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að eftir að hafa fylgst með brunavettvangi og slökkt síðustu glæðurnar sé slökkviliðið nú að taka saman og á heimleið.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk tilkynningu skömmu eftir klukkan þrjú í nótt um að eldur logaði í húsi að Fornubúðum í Hafnarfirði. Um fimmtíu slökkviliðsmenn tóku þátt í slökkvistarfinu. Klukkan fimm í morgun var ákveðið að óska eftir aðstoð frá Brunavörnum Suðurnesja og Brunavörnum Árnessýslu og voru fimm menn frá hvoru liði sendir á vettvang.

„Þetta var mjög mikið. Mikill mannskapur og mikið af tækjum,“ segir Stefán um stórbrunann. Á slökkviliðsstöðinni snúist allar þvottavélar en þrífa þarf alla galla og öll tæki.

„Við erum alltaf nokkra daga að jafna okkur eftir svona stóreld, að koma öllu í lag og þrífa allt og annað,“ segir Stefán sem á ekki vona á því að slökkviliðið þurfi að mæta aftur á vettvang í nótt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×