Skotið var framkvæmt viku á eftir áætlun, þegar Indverjar hættu skyndilega við geimskotið vegna tæknilegra örðuleika..
Greint er frá því að mikil fagnaðarlæti hafi brotist út í stjórnstöð geimferðarstofnunarinnar í kjölfar þess að skotið heppnaðist.
Indverska geimfarinu var skotið á loft einum degi eftir að Bandaríkjamenn fögnuðu því að fimmtíu ár eru liðin frá því að Apollo 11 sendiferðin setti bandaríska geimfara á tunglið.
Geimfarið hefur hlotið nafnið Chandrayaan, sem útleggst sem tunglfar á tungumálinu sanskrit. Chandrayaan er hannað til þess að lenda á suðurpól tunglsins í september og senda af stað könnunarfar sem er ætlað að kanna vatnssetlög á tunglinu.
Fyrsta sendiför Indlands til tunglsins var farin árið 2008 og átti hún þátt í að staðfesta tilvist vatns á tunglinu.
Í mars síðastliðnum framkvæmdu Indverjar vel heppnað tilraunaskot þar sem eldflaug var notuð til að granda gervihnetti. Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, sagði afrekið gera Indland að „geim-ofurveldi.“ Einungis þrjú önnur ríki hafa skotið niður gervihnetti.
Indland áætlar að senda fyrsta mannaða geimfar sitt út í geim fyrir lok ársins 2022.