Skoðun

Að dæma Akureyri í Staðarskála

Konráð Guðjónsson skrifar
Hvalveiðar, mannanafnanefnd og listamannalaun. Það bregst ekki frekar en að sólin rís í austri að Íslendingar þræti um þessi málefni. Undanfarin ár hefur nýtt fyrirbæri laumast inn í þennan hóp: Íslenskt verðlag.

Í vikunni voru enn einu sinni fluttar fréttir af því að Ísland væri dýrasta land í Evrópu. Að vísu byggði það á úreltum tölum frá 2018 og eftir veikingu krónunnar er Ísland fallið úr toppsætinu, en er enn fremur dýrt. Venju samkvæmt stukku fjölmiðlar til og fleiri eltu með vandlætingu á ástandinu. Hver vill ekki borga sem minnst til að fá sem mest?

Vandinn er að þessi nálgun er eins og að keyra frá Reykjavík í Staðarskála og dæma þaðan Akureyri. Með öðrum orðum, að bera einvörðungu saman verðlag milli landa segir ekki nema í besta falli hálfa söguna um hversu mikið fólk fær fyrir aurana sína. Jákvæð tengsl verðlags og kaupmáttar fólks eru nefnilega kirfilega fest bæði af fræðikenningum og gögnum. Það er því ekki tilviljun að þau lönd sem eru í augnablikinu ofar en Ísland á verðlagslistanum séu Sviss og Noregur þar sem hagsæld er hvað mest og laun hæst. Hátt verðlag, sem verðmætasköpun stendur undir, ætti því frekar að vera markmiðið.

Hátt verðlag blandast líka í umræðuna um hvort taka skuli upp evru þó að það sé máttlítil röksemd fyrir krónu eða evru. Til dæmis er verðlag á Írlandi nærri tvöfalt hærra en í Litháen þó bæði búi þau við evru. Verðlag á Íslandi er síðan nær þrefalt hærra en í Rúmeníu þó bæði ríkin noti eigin gjaldmiðil.

Kannski er þetta misskilningur. Kannski ætti Ísland að stefna að lægsta verðlagi í Evrópu. Þá væri hægt að leita fyrirmynda þar sem verðlag er hvað lægst, eins og í Albaníu og Búlgaríu. Botn­sætið á lista Eurostat vermir Tyrkland. Stefnum við kannski að því að verða draumaland Erdogans með 24% stýrivexti og 60.000 króna lágmarkslaun?

Höfundur er hagfræðingur viðskiptaráðs.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×