Erlent

Johnson sagði ESB að fella út írsku baktrygginguna

Kjartan Kjartansson skrifar
Johnson mætti í fyrsta skipti sem forsætisráðherra í þingið í morgun.
Johnson mætti í fyrsta skipti sem forsætisráðherra í þingið í morgun. Vísir/EPA
Nýr forsætisráðherra Bretlands gerði fulltrúum Evrópusambandsins ljós fyrir þeirri afstöðu sinni að fellda þyrfti írsku baktrygginguna svonefndu út úr útgöngusamningi þeirra ef samkomulag á að nást um forsendur útgöngunnar. Fulltrúar sambandsins hafa fram að þessu ekki verið til viðræðu um breytingar á baktryggingunni.

Eitt helsta bitbeinið í viðræðum breskra stjórnvalda við Evrópusambandið um forsendur útgöngunnar er hvernig eigi að greiða úr málum á Írlandi og koma í veg fyrir að koma þurfi upp formlegu landamæraeftirliti á mörkum Norður-Írlands, sem er hluti af Bretlandi, og Írlands, sem verður áfram í Evrópusambandinu.

Baktryggingin svonefnda er fyrirvari um að reglur sambandsins gildi áfram á Norður-Írlandi þar til samningar nást um varanlega lausn. Harðlínumönnum í Íhaldsflokknum og þingmönnum norður-írska sambandssinnaflokksins sem ver minnihlutastjórn hans falli hugnast ekki sú leið og óttast þeir að Bretar festist þannig varanlega í sambandinu.

Nú segir Reuters-fréttastofan að Johnson, sem tók við embætti forsætisráðherra í gær, hafi greint breska þinginu frá því í morgun að hann hafi sagt forystufólki Evrópusambandsins að hann vilji losna við baktrygginguna. Johnson hefur sagst vilja gera nýjan samning við ESB áður en útgöngudagurinn 31. október rennur upp.

„Það verður að vera ljóst að leiðin að samningnum verður í gegnum afnám baktryggingarinnar,“ sagði Johnson í fyrstu ræðu sinni sem forsætisráðherra á þingi.

Ólíklegt er að fulltrúa Evrópusambandsins taki vel í þessar hugmyndir Johnson. Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, segist hlakka til að ræða málið við Johnson en hefur lýst hugmynd hans um nýjan samning við ESB sem óraunhæfri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×