Skoðun

Doktor Ásgeir

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Val á nýjum Seðlabankastjóra hlaut alltaf að verða umdeilt. Starfið er mjög mikilvægt og miklu skiptir að sá sem í þeim stól situr hafi vit og festu til að taka mikilvægar ákvarðanir á ögurstundum í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ekki er annað að sjá en að staðið hafi verið mjög fagmannlega að valinu á dr. Ásgeiri Jónssyni. Hæfisnefnd taldi hann einn fjögurra sem best væru hæfir til að gegna embættinu og eftir viðtöl og yfirferð forsætisráðherrans var hann valinn seðlabankastjóri. Gott mál.

Einhverjir hafa stigið fram og talið það mjög óeðlilegt að einstaklingur sem hafði unnið í bankakerfinu fyrir hrun tæki við slíku embætti. Eins og vanalega eru stór orð látin falla í komm­entakerfunum og margir reiðir og æstir.

Ég er mjög ósammála slíku tali. Embætti sérstaks saksóknara var sett á laggirnar til að rannsaka þau brot sem hugsanlega voru framin í aðdraganda hrunsins eða í hamförunum sem því fylgdu. Það var nauðsynlegt að gera, en hugmyndin var ekki sú að allir þeir sem höfðu unnið á fjármálamarkaði fyrir árið 2008 og ekki brotið af sér, ættu aldrei að koma aftur að slíkum störfum.

Þvert á móti má ætla að ýmsir þeir sem voru í hringiðu þeirra atburða hafi þar öðlast mjög dýrmæta reynslu. Er ekki einmitt skynsamlegt að þjóðfélagið nýti sér reynslu þessara einstaklinga, fremur en að byggja eingöngu á þeim sem litla reynslu hafa og eru þar með jafnvel líklegri til að endurtaka mistökin sem leiddu til hrunsins?

Reyndar segja menn að fjármálakreppur komi öllum alltaf á óvart, nema snillingunum sem sáu þær fyrir eftirá.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×