Innlent

MDE dæmir Exeter-mál á þriðjudaginn

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Styrmir Þór í héraðsdómi.
Styrmir Þór í héraðsdómi. fréttablaðið/Stefán Karlsson
Mannréttindadómstóll Evrópu mun kveða upp dóm í máli Styrmis Þórs Bragasonar gegn íslenska ríkinu á þriðjudag, 17. júlí. Styrmir, sem er fyrrverandi forstjóri MP banka, var árið 2013 dæmdur af Hæstarétti Íslands til eins árs fangelsis í hinu svokallaða Exeter-máli. Styrmir kvartaði til Mannréttindadómstólsins sem tók málið til meðferðar vorið 2016.

Styrmir var fundinn sekur um hlutdeild í umboðssvikum tengdum lánveitingum sparisjóðsins Byrs til Tæknisetursins Arkea ehf. til kaupa á stofnfjárbréfum í sjóðnum. Samkvæmt dómnum hafi hann lagt á ráðin um það ásamt Jóni Þorsteinssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Byrs, og Ragnari Z. Guðjónssyni, fyrrverandi sparisjóðsstjóra. Hlutu þeir hvor um sig fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í málinu.

Héraðsdómur sýknaði Styrmi í tvígang í málinu en Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu. Kæra Styrmis fyrir Mannréttindadómstólnum lýtur að því að brotið hafi verið gegn reglu um milliliðalausa sönnunarfærslu. Hafi Hæstiréttur endurmetið sönnunargildi munnlegs framburðar án þess að vitnin hafi komið fyrir réttinn og gefið skýrslu.

Þetta er sama atriði og var meðal annars notað í hinu svokallaða Vegas­máli frá 2003. Þá komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði ekki veitt sakborningi réttláta málsmeðferð í manndrápsmáli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×