Erlent

Losun Kínverja jókst um helming á áratug

Kjartan Kjartansson skrifar
Kolaorkuver í Hong Kong spúir reyk út í andrúmsloft jarðar.
Kolaorkuver í Hong Kong spúir reyk út í andrúmsloft jarðar. Vísir/EPA
Opinberar tölur kínverskra stjórnvalda benda til þess að losun gróðurhúsalofttegunda í Kína hafi aukist um rúman helming frá 2005 til 2014. Kínverjar hafa sagst stefna á því að losunin nái hámarki árið 2030 og minnki þaðan í frá.

Reuters-fréttastofan segir að ógegnsæi ríki alla jafna um mengun í Kína. Nýjustu losunartölurnar eru þær sem kínversk stjórnvöld skiluðu vegna loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Alls nam losunin 12,3 milljörðum tonna af koltvísýringi og jókst hún um 53,5% á áratug.

Ekki er tekið tillit til landnotkunar í þeim tölum. Kínverska umhverfisráðuneytið heldur því fram að sé tekið tillit til bindingar skóga og annars gróðurs hafi nettó losunin numið 11,2 milljörðum tonna. Það er engu að síður 17% aukning frá 2010.

Áætlað hefur verið að losun Kínverja hafi náð 9,54 milljörðum tonna árið 2013 og hafði þá aldrei verið meiri. Rannsókn sem birtist í vísindaritinu Nature Geoscience taldi að losunin hefði dregist saman næstu þrjú árin á eftir vegna samdráttar í eftirspurn eftir orku. Hún hefur síðan aukist aftur.

Kínverjar eru stórtækustu losendur gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum í heiminum, á undan Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×