Ríkisdómari í Virginíu dæmdi karlmann á þrítugsaldri í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa drepið mótmælanda þegar hann ók inn í skara fólks í borginni Charlottesville í ágúst árið 2017. Alríkisdómstóll hafði áður dæmt manninn í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn vegna hatursglæpa.
James Fields, 22 ára nýnasisti, ók bíl sínum inn í hóp fólks sem mótmælti samkomu hvítra þjóðernissinna, Kú Klúx Klan-liða og nýnasista í Charlottesville með þeim afleiðingum að Hearther Heyer, 32 ára mótmælandi, lét lífið og fjöldi annarra særðist.
Hann hlaut lífstíðardóm auk 419 ára til viðbótar fyrir morð og líkamsárásir, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Herra Fields, þú verðskuldar refsinguna sem kviðdómur ákvað. Það sem þú gerðir var hryðjuverk,“ sagði dómarinn Richard Moore þegar hann kvað upp refsinguna.
Susan Bro, móðir Heyer, las upp yfirlýsingu í dómsal og sagðist vonast eftir að Fields byggði sig upp í fangelsi.
„En ég vona líka að hann sjái aldrei dagsins ljós utan fangelsis,“ sagði Bro.
