Erlent

Vilja stilla til friðar í Hong Kong sem fyrst

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögregla hefur beitt táragasi gegn mótmælendum.
Lögregla hefur beitt táragasi gegn mótmælendum. Nordicphotos/AFP
Sérstök skrifstofa Kommúnistaflokks Kína í höfuðborginni Peking um málefni Hong Kong og Macau fordæmdi í gær áhlaup sem mótmælendur í Hong Kong gerðu á þinghús sjálfstjórnarhéraðsins á mánudag. Fjöldi mótmælenda kom sér þá inn í þinghúsið og vann spellvirki á málverkum, húsgögnum og öðru. Þá var kallað eftir því að yfirvöld í borginni stilltu til friðar hið fyrsta.

Mótmælaalda hefur riðið yfir Hong Kong frá því í maí. Á áttunda tug hafa særst í aðgerðum lögreglu og rúmlega þrjátíu verið handtekin. Mótmælin kviknuðu vegna frumvarps um að leyfa skyldi framsal til meginlands Kína en eftir að frumvarpinu var stungið ofan í skúffu hafa mótmælendur einkum beint spjótum sínum að Carrie Lam, æðsta stjórnanda Hong Kong, og krafist afsagnar hennar.

Geng Shuang, upplýsingafulltrúi hjá kínverska utanríkisráðuneytinu, sagði áhlaupið á þinghúsið hafa verið gróft lögbrot. Hann kallaði eftir því að Bandaríkin og ESB fordæmdu það og bætti við að það væri mikil hræsni fólgin í því að fordæma ekki gjörðir mótmælenda. „Það er tvískinnungur að segjast einungis styðja réttinn til friðsamlegra mótmæla. Við vitum öll hvernig lögreglan í Bandaríkjunum og Evrópu tekur á ofbeldi og framfylgir lögum,“ bætti Geng við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×