Erlent

Nýr samningur markar tímamót í Afríku

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Moussa Faki Mahamat á fundi Afríkusambandsins.
Moussa Faki Mahamat á fundi Afríkusambandsins. Nordicphotos/AFP
Nýr fríverslunarsamningur allra Afríkuríkja utan Erítreu markar tímamót í sögu álfunnar. Þetta sagði Moussa Faki Mahamat, forseti Afríkusambandsins, í gær. Nígería, með sitt stærsta hagkerfi álfunnar, og Benín undirrituðu samninginn á sunnudag og voru síðustu ríkin, utan Erítreu, til þess að skrifa undir.

„Þetta er eins og að draumur, gamall draumur frá fyrsta fundinum í maí 1963, hafi ræst. Afríski fríverslunarsamningurinn sem við tökum í gagnið í dag er eitt mikilvægasta verkefnið á dagskrá Afríku og stofnendur sambandsins væru án nokkurs vafa stoltir,“ sagði Mahamat aukinheldur.

Með samningnun hefur orðið til í Afríku stærsti fríverslunarmarkaður heims. Það þýðir búbót fyrir Afríkuríki og samkvæmt Afríkusambandinu munu milliríkjaviðskipti innan álfunnar aukast um sextíu prósent fyrir árið 2022. Í dag nema milliríkjaviðskipti Afríkuríkja innan álfunnar um sextán prósentum af heildarviðskiptum.

Erítrea er eins og áður segir ekki aðili að samningnum. Ástæðan er langvarandi átök við Eþíópíu að því er Albert Muchanga, viðskiptamálastjóri framkvæmdastjórnar Afríkusambandsins, sagði á dögunum. Hins vegar var samið um frið í júlí á síðasta ári og hefur Afríkusambandið því beðið Erítreu um að koma að borðinu.

Eins og er hafa 27 ríki fullgilt samkomulagið. Meðal annars Kenía og Gana. Þá hafa stjórnvöld í Marokkó sagt von á fullgildingu innan fáeinna daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×