Körfubolti

LeBron James verður leikstjórnandi Lakers-liðsins í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James mun gera enn meira af því að spila samherjana upp á komandi tímabili.
LeBron James mun gera enn meira af því að spila samherjana upp á komandi tímabili. Getty/Harry How
Körfuboltamaðurinn LeBron James verður í nýju hlutverki á sínu sautjánda tímabili í NBA-deildinni samkvæmt fréttum frá Bandaríkjunum.

LeBron James verður nú færður í leikstjórnandastöðu Lakers-liðsins. LeBron James er eins og margir vita 203 sentímetrar á hæð og 113 kíló eða mun stærri og þyngri en hinn hefðbundni leikstjórnandi.

Lakers hefur ekki haft svona stóran leikstjórnanda síðan að Earvin „Magic" Johnson réði ríkjum í Forum höllinni í Inglewood á níunda áratug síðustu aldra.

LeBron James er á sínu öðru ári með liði Los Angeles Lakers en Lakers-liðið hefur tekið miklum breytingum á milli tímabila. Los Angeles Lakers náði ekki að sannfæra Kawhi Leonard um að koma en fékk Anthony Davis í risa leikmannaskiptum við New Orleans Pelicans.





James hefur alltaf verið þekktur fyrir fjölhæfni sína, leikskilning og sendingagetu. Hann hefur einnig oft tekið að sér leikstjórn sinna liða inn í leikjunum og á mikilvægum tímapunktum.

Lakers er með þrjá leikstjórnendur í sínu liði eða þá Rajon Rondo, Quinn Cook og Alex Caruso. Þeir munu þá væntanlega koma inn af bekknum til að leysa James af.





Það má búast við að LeBron James skori minna á komandi tímabili en stoðsendingarnar ættu að hækka. Hann gaf 8,3 stoðsendingar að meðaltali á síðasta tímabili en hefur mest gefið 9,1 í leik á tímabili. Nú er spurning hvort hann fari yfir 10 í leik eða jafnvel verið stoðsendingakóngur deildarinnar.

Lakers hefur verið að safna að sér góðum skotmönnum að undanförnu og samdi meðal annars við NBA-meistarann Danny Green og miðherjann DeMarcus Cousins, sem getur líka skotið fyrir utan þriggja stiga línuna.

Nýjasti leikmaður Lakers er síðan bakvörðurinn Avery Bradley sem sló í gegn hjá Boston Celtics en hefur verið á miklu flakki undanfarin ár.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×