Erlent

Tugir fórust í átökunum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mekonnen hershöfðingja minnst.
Mekonnen hershöfðingja minnst. Nordicphotos/AFP
Tugir létust í átökum í Amhara-héraði Eþíópíu um síðustu helgi er uppreisnarmenn reyndu að steypa héraðsstjórninni af stóli. Þetta hafði Reuters eftir upplýsingafulltrúa héraðsstjórnarinnar í gær. Samkvæmt upplýsingafulltrúanum, Asemahagh Aseres, réðust uppreisnarmenn á höfuðstöðvar lögreglu, skrifstofur ráðandi flokks og skrifstofur héraðsforseta.

Þrír embættismenn voru drepnir, þar á meðal Ambachew Mekonnen héraðsforseti. Þá var starfsmannastjóri eþíópíska hersins, Seare Mekonnen hershöfðingi, myrtur í höfuðborginni.

Að sögn Asemahagh er uppreisnarsveitin nýstofnuð. „Þetta er hluti af lögreglunni. Þau eru ekki sjálfstæð. Stærstur hluti okkar manna hefur ekki gengið til liðs við þau og varði okkur gegn árásum,“ sagði hann.

Samkvæmt greiningu Reuters setur það aukinn þrýsting á Abiy Ahmed forsætisráðherra að uppreisnarmennirnir hafi komið úr röðum héraðslögreglu. Ahmed hefur að undanförnu reynt að vinda ofan af bönnum á aðra stjórnmálaflokka og leyst uppreisnarmenn, blaðamenn og pólitíska fanga úr haldi. Hann er sagður hafa skapað sér ýmsa óvini er hann hristi upp í yfirstjórn hers og leyniþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×