Íslenski boltinn

Fjölnir á toppinn eftir stórsigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fjölnismenn setjast í toppsæti Inkassodeildarinnar
Fjölnismenn setjast í toppsæti Inkassodeildarinnar Vísir/Getty
Fjölnir tók toppsæti Inkassodeildar karla af Gróttu með stórsigri á Þór á Extra vellinum í Grafarvogi. Magni náði í jafntefli gegn Víkingi Ólafsvík.

Baráttan í efri hluta Inkassodeildarinnar er ótrúlega jöfn og spennandi og leikur Fjölnis og Þórs var upp á toppsætið, hefði orðið jafntefli yrðu fjögur lið jöfn á toppnum með 17 stig.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Hermann Helgi Rúnarsson sjálfsmark strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks.

Jóhann Árni Gunnarsson skoraði annað mark Fjölnis á 66. mínútu og undir lokin gengu heimamenn frá leiknum. Ingibergur Kort Sigurðsson skoraði glæsimark á 85. mínútu og þremur mínútum seinna skoraði varamaðurinn Jón Gísli Ström. Jón Gísli hafði verið inn á vellinum rétt um fimm mínútur.

Fleiri urðu mörkin ekki og Fjölnir fer á toppinn eftir öruggan 4-0 sigur.

Víkingur Ólafsvík mistókst að ná sér í mikilvæg þrjú stig þegar liðið sótti botnlið Magna heim á Grenivík.

Leiknum á Grenivíkurvelli lauk með markalausu jafntefli.

Fjölnir situr á toppi Inkassodeildarinnar með 19 stig. Grótta og Fram eru með 17 stig, Þór 16 og Leiknir 15 stig. Í 6. og 7. sæti sitja Keflavík og Víkingur með 14 stig. Fimm stigum munar því á toppliðinu og liðinu í sjöunda sæti þegar níu umferðir eru búnar.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×