Fótbolti

Dóttir Hamrén heldur að Ísland sé Mallorca

Kolbeinn Tumi Daðason á Laugardalsvelli skrifar
Það var glatt á hjalla á Laugardalsvelli í kvöld.
Það var glatt á hjalla á Laugardalsvelli í kvöld. Vísir/Daníel Þór
„Ef við hefðum tapað hefði ég líklega farið heim á morgun,“ sagði Erik Hamrén landsliðsþjálfari eftir 2-1 sigur á Tyrkjum í kvöld. Hamrén var spurður út í plön hans fyrir sumarið. Hvort hann ætlaði að sóla sig og hvort hann yrði þá ekki bara áfram á Íslandi þar sem veðrið leikur við alla.

„Ég hef verið hérna í þrjár og hálfa viku og unnið að undirbúningnum á hótelinu,“ sagði Hamrén.

„Það hefur verið sólskin á hverjum degi!“

Fjölskylda Hamrén kom hingað til lands á föstudaginn og sá íslenska liðið leggja Albaníu og nú Tyrki að velli.

„Dóttir mín er hér með konunni. Hún heldur að þetta sé Mallorca,“ sagði Hamrén og skellti upp úr.

„Þetta hefur verið frábært og ég verð hérna aukadag og nýt lífsins á þessari gullfallegu eyju, og svo ætla ég að hafa það gott í sumar.“

Hamrén sagði þó að sigurinn kæmi fjölskyldu hans best. Hún yrði ánægð því starf þjálfara bitnaði oft á fjölskyldunni.

„Fjölskyldan er í skýjunum.“

Hamrén sagði erfitt fyrir landsliðsþjálfara að gera nokkuð yfir sumartímann. Hann gæti ekki haft það mikil áhrif. En svo kæmi ágúst á þá hæfist undirbúningur á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×