Innlent

WOW Cyclothon-söfnunin hófst með „samhjóli“

Kjartan Kjartansson skrifar
Upphaf áheitasöfnunarinnar var markað með samhjóli inn Mosfellsdal og í Reykjadal.
Upphaf áheitasöfnunarinnar var markað með samhjóli inn Mosfellsdal og í Reykjadal. Wow Cyclothon
Opnað var fyrir áheit í Wow Cyclothon-hjólreiðakeppninni í dag en um tvö hundruð hjólreiðamenn tóku þátt í samhjóli af því tilefni í kvöld. Keppnin sjálf hefst eftir tæpar tvær vikur en að þessu sinni rennur aðalstyrkur hennar til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal.

Hjólakvöldið sem markaði upphaf söfnunarinnar hófst við Egilshöll klukkan 18:00 í kvöld. Hjólaðir voru fyrstu kílómetrar keppnisleiðarinnar inn í Mosfellsdal, að því er segir í tilkynningu frá keppninni. Í lokin var komið við í sumarbúðunum í Reykjadal þar sem slegið var upp sameiginlegri grillveislu.

Hjólreiðakeppnin stendur yfir dagana 25. til 29. júní. Mörg lið eru sögð skráð til leiks. Um níutíu milljónir króna hafa safnast frá því að Wow Cyclothon hóf göngu sína, að því er segir í tilkynningunni.

Styrkurinn sem safnast með áheitum í ár á að renna til viðbyggingar við sumarbúðirnar í Reykjadal sem eiga að bæta aðstöðu og aðgengi þar. Þannig á að stækka matsal svo rýmra verði um fólk í hjólastól.

„Um 250 börn og ungmenni koma árlega í sumarbúðirnar en þau eiga það öll sameiginlegt að eiga ekki kost á annarri sumardvöl vegna fötlunar. Sumarbúðirnar hafa það að leiðarljósi að skapa ævintýri og nýjar upplifanir fyrir alla þá sem þangað sækja,“ segir í tilkynningunni.

Frá vinstri: Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðumaður Reykjadals, Björk Kristjánsdóttir, keppnisstjóri WOW Cyclothon, Vilmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, og Hörður Sigurðsson, formaður stjórnar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.Wow Cyclothon



Fleiri fréttir

Sjá meira


×