Hlutfall mæðra sem ekki hafa náð tvítugsaldri er mun hærra á Suðurnesjum en á landsvísu. Á landinu öllu fæddu 6,8 stúlkur af hverjum 1.000, á aldrinum fimmtán til nítján ára, börn á árunum 2014-2018 en á Suðurnesjum voru þær 17 af 1.000.
Þetta kemur fram í lýðheilsuvísum Landlæknisembættisins fyrir árið 2019. Anna Sigríður Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi og fulltrúi Lýðheilsuráðs Suðurnesja, segir að ekki liggi ein ástæða að baki því hversu hátt hlutfall ungra mæðra er á Suðurnesjum.
„Við erum að stækka mjög hratt og hér býr mikið af ungu fólki. Einnig hefur heilsugæslan hér setið á hakanum miðað við önnur bæjarfélög og góð heilsugæsla er stór þáttur í því að auka heilsueflingu allra bæjarbúa.“
Hvað varðar forvarnir og það hvernig megi bregðast við þessum fjölda segir Anna að mikið hafi verið lagt í það í bæjarfélaginu að auka forvarnir, menntun og atvinnutækifæri. „Við höfum lagt mikið í það að auka hér forvarnir ásamt því að við höfum hvatt börn og ungmenni til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi. Við stefnum einnig að því að fjölga hér störfum sem krefjast háskólamenntunar og erum stolt af því starfi sem hér hefur átt sér stað í eflingu geðheilsu bæjarbúa,“ segir Anna og bætir því við Suðurnesin séu samfélag þar sem lögð sé áhersla á bæði andlega og líkamlega heilsu.
Innlent