Erlent

Leggja fram myndband sem sýnir Írani fjarlægja sprengju úr öðru olíuskipinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Annað skipanna sem varð fyrir árásinni.
Annað skipanna sem varð fyrir árásinni. ISN/AP
Bandaríski herinn hefur gert opinbert myndband sem á að sýna íranska sérsveit fjarlægja ósprungið tundurdufl úr öðru tveggja olíuflutningaskipa sem ráðist var á á Ómanflóa í gær. Bandaríkin segja Írani standa á bak við árásirnar og hafa lagt myndbandið fram til stuðnings þeim ásökunum.

Auk myndbandsins hafa Bandaríkjamenn lagt fram ljósmynd sem sýnir skipið eftir árásina. Utan á því má sjá eitthvað sem Bandaríkin segja vera sprengjuna sem um ræðir. BBC greinir frá.





Árásirnar áttu sér stað í gær en skotmörkin voru, eins og áður sagði, tvö olíuflutningaskip. Ekkert mannfall varð í árásunum.

Íranir hafa alfarið hafnað ásökunum Bandaríkjanna en utanríkisráðherra Írans hefur lýst árásunum sem „grunsamlegum.“

Spenna á milli Bandaríkjanna og Írans hefur stigmagnast undanfarnar vikur og mánuði. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt viðskiptaþvinganir á Írani eftir að hann sagði Bandaríkin frá kjarnorkusamningi heimsveldanna við Íran í fyrra. Íranar hafa á móti hótað að loka Hormússundi fái þeir ekki að selja olíu úr landi.

Öryggissérfræðingar vara við því að hrapað sé að ályktunum um árásirnar í gær. Hugsanlega séu Íranir ábyrgir en einnig sé mögulegt aðrir hópar reyni að koma höggi á stjórnvöld í Teheran.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×