Lífið

Netverjar gáttaðir á "ósmekklegum“ raunveruleikaþætti Stranger Things-stjörnu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gaten Matarazzo er sextán ára og hefur getið sér gott orð í Hollywood fyrir leik sinn í Stranger Things.
Gaten Matarazzo er sextán ára og hefur getið sér gott orð í Hollywood fyrir leik sinn í Stranger Things. Getty/Cindy Ord
Bandaríski leikarinn Gaten Matarazzo, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem hinn viðkunnanlegi Dustin í Netflix-þáttaröðinni Stranger Things, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir væntanlega raunveruleikaþætti sem hann mun stýra og verða sýndir á streymisveitunni.

Þættirnir heita Prank Encounters en í tilkynningu frá Netflix segir að þeir gangi út á að hrekkja fólk í atvinnuleit. Þannig verði fylgst með einstaklingum sem telja sig vera að mæta til vinnu á nýjum stað en „hlutastarfið“ verði fljótt að „allsherjarmartröð“.

Matarazzo, sem er sextán ára, verður stjórnandi þáttarins og er einnig titlaður einn aðalframleiðandi seríunnar. Ekki er enn ljóst hvernig fyrirkomulagi þáttanna verður nákvæmlega háttað en netverjar og pistlahöfundar hafa  margir sett sig upp á móti tilhöguninni.

Pistlahöfundur Vulture segir þáttinn til dæmis hljóma eins og þáttur úr Black Mirror-seríunni, sem tekur fyrir ýmis samfélagsmein í dystópískum víddum.

„Það eina sem er verra en að byrja í nýrri vinnu er að átta sig á því að krakkinn úr Stranger Things var að hrekkja mann í leyni allan tímann,“ skrifar pistlahöfundurinn, Halle Kiefer.

Þá lýstu margir yfir vanþóknun á hugmyndinni á samfélagsmiðlum. Þættirnir geri lítið úr stöðu atvinnulausra og muni koma til með að nýta sér neyð fólks á ósmekklegan hátt.

Leikarinn Michael Welch, sem fór með hlutverk Mike Newton í Twilight-kvikmyndunum, gaf jafnframt lítið fyrir fyrirhugaða þætti Matarazzos.

Það virtist leikkonan Mara Wilson, sem fór með hlutverk Matthildar í samnefndri kvikmynd, einnig gera en hún lagði til að hún og Welch, sem fyrrverandi barnastjörnur, kölluðu Matarazzo á sinn fund og reyndu að fá hann ofan af því að stýra þáttunum.

Hér að neðan má sjá frekari viðbrögð netverja við væntanlegri þáttaröð. Sjálfur hefur Matarazzo ekki tjáð sig um málið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.