Sport

Ísland í 3. sæti yfir flest verðlaun á Smáþjóðaleikunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton Sveinn McKee vann til fernra gullverðlauna á Smáþjóðaleikunum.
Anton Sveinn McKee vann til fernra gullverðlauna á Smáþjóðaleikunum. mynd/ísí
Tvær þjóðir unnu til fleiri verðlauna en Ísland á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi sem lauk í dag.

Íslensku keppendurnir unnu til 55 verðlauna. Lúxemborg vann flestra verðlauna, 77, og Kýpur til næstflestra, 64.

Þessar þrjár þjóðir röðuðu sér í sömu sæti á verðlaunalistanum á Smáþjóðaleikjunum í San Marinó fyrir tveimur árum.

Ísland vann til 19 gullverðlauna á Smáþjóðaleikunum í ár. Lúxemborg vann flest gull, 26, og Kýpur næstflest, 21. Íslensku keppurnir unnu til 13 silfurverðlauna og 23 bronsverðlauna.

Sundkappinn Anton Sveinn McKee vann til flestra gullverðlauna af íslensku keppendunum á leikunum, eða fernra.

Anton Sveinn vann til gullverðlauna í 50, 100 og 200 metra bringusundi og í 4x100 metra boðsundi. Anton Sveinn var fánaberi Íslands á lokahátíð Smáþjóðaleikanna í kvöld.

Íslensku keppendurnir halda heim á leið annað kvöld.


Tengdar fréttir

Tap gegn Kýpur í síðasta leik

Íslenska karlalandsliðið í blaki tapaði öllum leikjum sínum á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi eftir tap í síðasta leiknum á móti Kýpur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×