Erlent

Norður-kóreskur erindreki skaut aftur upp kollinum

Gunnar Reynir Valþórsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Kim Yong-chol hitti Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í júní í fyrra.
Kim Yong-chol hitti Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í júní í fyrra. Vísir/Getty
Frásagnir suður-kóreskra miðla af hreinsunum í Norður-Kóreu virðast hafa verið orðum auknar. Erindreki Kim Jong-un einræðisherra sem átti að hafa verið sendur í þrælkunarbúðir er sagður hafa skotið upp kollinum á tónleikum um helgina.

Í síðustu viku var fullyrt að diplómatar sem komu að samningafundi Norður-Kóreu og Bandaríkjunum sem fór út um þúfur í febrúar hafi verið teknir af lífi eða sendir í þrælkunarbúðir. Þar á meðal var fullyrt að Kim Yong-chol, sem oft er kallaður hægri hönd einræðisherrans Kim Jong-un, og fór meðal annars til Bandaríkjanna til að hitta Trump forseta til að undirbúa leiðtogafundinn, hefði verið settur í þrælkunarbúðir.

Það virðist ekki stemma því norður-kóreskir ríkisfjölmiðillinn fullyrðir að Kim Yong-chol hafi mætt á tónleika um helgina ásamt sínum ástkæra leiðtoga og sat hann í næsta nágrenni við Kim. Virtist hann alls ekki útskúfaður úr valdaklíkunni í Norður-Kóreu.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að þrátt fyrir að Kim Yong-chol hafi verið á tónleikunum þýði það ekki endilega að hann hafi ekki verið sendur í þrælkunarbúðir. Oft sé erfitt að staðfesta fréttir um hreinsanir eða aftökur háttsettra embættismanna í Norður-Kóreu.

Kim Hyok-chol, aðalsamningamaður Norður-Kóreu í kjarnorkuviðræðum við Bandaríkjunum, var ekki á meðal þeirra sem voru viðstaddir tónleikana. Suður-kóreskt dagblað fullyrti að hann hefði verið tekinn á lífi á flugvelli í Pjongjang í mars, sakaður um njósnir fyrir Bandaríkin. Ríkismiðillinn hefur ekki sagt frá því að hann hafi verið tekinn af lífi eða refsað með öðrum hætti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×