Körfubolti

Frægasta fótspor NBA-sögunnar á afmæli í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allen Iverson reynir að komast framhjá Tyronn Lue í lokaúrslitunum 2001.
Allen Iverson reynir að komast framhjá Tyronn Lue í lokaúrslitunum 2001. Getty/Manny Millan
Allen Iverson bauð upp á sögulega frammistöðu í fyrsta leik sínum í lokaúrslitum NBA-deildarinnar.

Aldrei áður og aldrei síðar hefur leikmaður skorað jafnmörg stig í sínum fyrsta leik í úrslitaeinvíginu en Iverson gerði 6. júní 2001. Það var þó sérstaklega eitt fótspor Allen Iverson sem hefur haldið minningunni um þennan leik á lífi en síðan eru liðin nákvæmlega átján ár.

Allen Iverson skoraði 48 stig í leiknum á móti Los Angeles Lakers sem Philadelphia 76ers vann óvænt 107-101 á heimavelli Lakers.

Iverson var einnig með 6 stoðsendingar, 5 fráköst og 5 stolna bolta. Hann skoraði 34 stuigum meira en næststigahæsti leikmaður 76ers liðsins sem voru þeir Dikembe Mutombo og Eric Snow með 13 stig hvor.





Tyronn Lue kom inn af bekknum hjá Lakers liðinu og fékk það verkefni að reyna að hægja á Allen Iverson sem hafði átt magnað tímabil og var meðal annars kjörinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar.

Leikurinn var framlengdur og Allen Iverson spilaði 52 mínútur af 53 mínútum í boði. Hann hitti úr 18 af 41 skoti utan af velli, 3 af 8 þriggja stiga skotum og öllum níu vítunum.

Eftir eina af körfum Iverson á lokakaflanum þá lá Tyronn Lue á gólfinu fyrir framan hann. Iverson steig þá yfir hann með og gerði um leið lítið úr Tyronn Lue. Í dag fengi leikmaður tæknivillu fyrir þetta í NBA-deildinni en Iverson slapp og fagnaði seinna sigri í leiknum.

Philadelphia 76ers átti hins vegar fá svör við ríkjandi meisturum Los Angeles Lakers eftir það. Shaquille O'Neal og Kobe Bryant félagar unnu næstu fjóra leiki og tryggði sér annan meistaratitilinn í röð.

Það breytir ekki því að það frægasta atvikið úr þessu einvígi er þetta fótspor Allen Iverson. Iverson komst aldrei aftur í lokaúrslit NBA og endaði NBA-ferilinn sem flökkukind. Hann lék sinn síðasta leik í deildinni 20. febrúar 2010.













NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×