Handbolti

Velja Arnar Freyr og Elvar Örn bestu kaupin í Danmörku

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnar Freyr og Elvar.
Arnar Freyr og Elvar. vísir/getty/samsett
Einungis einn leikur er eftir af tímabilinu í danska handboltanum. Það er hreinn úrslitaleikur milli Íslendingaliðanna Álaborgar og GOG.

Álaborg jafnaði metin í 1-1 í gærkvöldi eftir mikla dramatík en vinna þarf tvo leiki til þess að tryggja sér danska titilinn. Oddaleikurinn fer fram í Álaborg á sunnudaginn.

Fjölmiðlar eru hins vegar farnir að horfa til næsta árs og TV 2 Sport, rétthafi deildarinnar, er farinn að skoða leikmannakaup liðanna fyrir næsta tímabil.

Peter Bruun Jørgensen, einn sérfræðinganna, velur Elvar Örn Jónsson bestu kaupin á leikmannamarkaðnum fyrir næsta tímabil en Elvar er á leið frá Íslandsmeisturum Selfoss til Skjern.

„Ég held að kaup Skjern á Elvari séu þau bestu. Hann sýndi það á HM hversu mikil gæði hann situr á. Sterkur í gegnumbrotum, góð skot og eins og allir Íslendingar leggur hann rosalega mikið á sig inni á vellinum,“ sagði Peter.

Annar sérfræðingur, Claus Møller Jakobsen, valdi Íslending en þó ekki þann sama. Hann valdi Arnar Freyr Arnarsson bestu kaupin en línumaður landsliðsins kemur til GOG frá Kristianstad í Svíþjóð.

„Ég held að bestu kaupin séu Arnar Arnarsson. Hann sýndi það á HM og í Meistaradeildinni að hann er í Bundesligu-klassa. Hann er með mikinn styrk og getur spilað allan leikinn,“ sagði Jakobsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×