Fótbolti

Ekki sömu leikreglur í landsleiknum á morgun og í Pepsi Max deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fær ekki að spila eftir nýjum reglunum fyrr en á næstu leiktíð.
Gylfi Þór Sigurðsson fær ekki að spila eftir nýjum reglunum fyrr en á næstu leiktíð. Getty/Jeroen Meuwsen
Eins og glöggir knattspyrnuáhugamenn hafa tekið eftir þá hefur verið spilað eftir nýjum leikreglum í fyrstu sjö umferðum Pepsi Max deildar karla.

Ísland var eitt af þeim löndum sem byrjaði strax með nýju knattspyrnureglurnar enda nýtt tímabil að hefjast hér á landi. Í öðrum löndum hafa menn að sjálfsögðu klárað tímabilið með gömlu reglunum.

Knattspyrnusamband Íslands vekur hins vegar athygli á því á heimasíðu sinni í dag að þessar umræddu breytingar á knattspyrnulögunum hafa ekki áhrif á leiki Íslands gegn Albaníu og Tyrklandi.

Ástæðan er að leikirnir við Albana og Tyrki tilheyra í raun keppnistímabilinu 2018 til 2019.

Breytingarnar tóku allar gildi 1. júní síðastliðinn og það verður spilað eftir þeim á 2019-2020 tímabilinu.

Breytingarnar hafa þegar tekið gildi í Mjólkurbikarnum og Íslandsmótinu, en munu ekki hafa áhrif á leiki og mót sem voru þegar hafin og klárast í júní. Þar má nefna úrslit Þjóðadeildarinnar og leikdaga þrjú og fjögur í undankeppni EM 2020.

Nokkur dæmi um nýju reglurnar sem verða ekki í gildi á Laugardalsvellinum á morgun er að boltinn þarf ekki að fara út úr teig við markspyrnu, leikmaður þarf að fara stystu leið út af vellinum við skiptingu og sóknarmenn verða að vera í minnsta kosti eins metra fjarlægð frá varnarveggnum í aukaspyrnu. Það má lesa meira um reglubreytingarnar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×