Fótbolti

Nauðgun, skattsvik og meiðsli

Benedikt Bóas skrifar
Neymar hefur verið orðaður við Real Madrid og endurkomu til Barcelona en PSG hefur gefið út að það vilji ekki og muni ekki selja Brassann.
Neymar hefur verið orðaður við Real Madrid og endurkomu til Barcelona en PSG hefur gefið út að það vilji ekki og muni ekki selja Brassann.
Daniel Alves, Neymar og Thiago Silva mæta á landsliðsæfingu í vikunni, eðlilega á einkaþyrlu Neymar.
Neymar da Silva Santos Júnior hefur átt erfitt ár. Nýjustu vandræðin eru ákæra fyrir nauðgun á hóteli í París sem hann þvertekur fyrir að hafa framið. Frá því að hann kom til baka eftir meiðsli og skoraði gegn Króötum í vináttuleik fyrir Heimsmeistaramótið þann 3. júní í fyrra hefur lífið ekki beint leikið við þennan dýrasta knattspyrnumann heims, hvorki innan vallar né utan.

Heimsmeistaramótið í Rússlandi fór ekki alveg eins og hann vildi. Brasilíumenn duttu út í átta liða úrslitum eftir tap gegn Belgum og Neymar var skammaður af flestum fyrir leikaraskap og almenna stæla á mótinu. Mikið grín var gert að sársaukaþröskuldi kappans og á internetinu var gert grín að kappanum með því að búa til alls konar „meme“ af honum rúllandi eftir grasinu. Eftir tapið gegn Belgum bauluðu áhorfendur á Neymar. Í samtali við AFP-fréttaveituna í júlí sagðist hann varla hafa viljað horfa á fótbolta, hvað þá sparka í einn – slík voru vonbrigðin í Rússlandi.

Þegar kom að því að velja besta knattspyrnumann heims var Neymar aðeins í 12. sæti. Verðlaunahátíðin var haldin í París þar sem Luka Modric var kosinn sá besti. Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem Neymar kemst ekki á topp 10 listann. Svo meiddist hann og gat ekki spilað gegn Manchester United í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Hann skellti sér þó til Ríó og tók þátt í hátíðarhöldum þar í bæ. Myndir af honum og myndbönd sýndu hann vel við skál og hann var lítið að hlífa fætinum sem hann var meiddur á. Alls missti hann af 27 af 58 leikjum PSG.

Neymar ásamt fjölskyldu. Faðir hans, Neymar eldri, stendur við hlið kappans en sá hefur blandað sér í málið og segir það vera fjárkúgun.
PSG tapaði eins og frægt er orðið fyrir Manchester-liðinu með sigurmarki úr umdeildri vítaspyrnu. Neymar fór á Instagram og sagði við dómarana: Go fuck yourselves – sem verður ekki endilega þýtt hér. Fyrir það fékk hann þriggja leikja bann í Meistaradeildinni.

Spænska blaðið El Mundo sagði svo frá því skömmu síðar að spænsk skattayfirvöld hefðu hafið rannsókn á skattamálum kappans eftir að hann fékk bónus frá Barcelona þegar hann framlengdi samning sinn. Voru eignir hans upp á átta milljarða frystar af dómstólum í Sao Paulo. Á hann að hafa sleppt því að greiða um þrjá milljarða í skatt á árunum 2011 til 2013.

Í apríl sló hann áhorfanda eftir óvænt tap í bikarúrslitaleiknum í Frakklandi. Hann skoraði í leiknum en PSG tapaði í vítaspyrnukeppni. Brasilískir fjölmiðlar fóru hamförum yfir frammistöðu Neymar í leiknum og þjálfari hans, Þjóðverjinn Thomas Tuchel, sagðist ekki líða svona hegðun. Hann fékk fimm leikja bann fyrir höggið.

Sársaukaþröskuldur Neymar þykir ekki hár og hefur mikið grín verið gert að kappanum fyrir látalæti þegar sparkað er í hann.
Til að undirbúa sig fyrir Copa America fór Neymar snemma til Brasilíu og sagðist hafa fengið leyfi frá PSG til að sleppa síðasta leiknum í deildinni sem liðið var löngu búið að vinna. Það kom forráðamönnum PSG á óvart og sagðist Tuchel ekki hafa veitt slíkt leyfi.

Fjórum dögum síðar var tilkynnt að Tite, landsliðsþjálfari Brasilíu, hefði tekið af honum fyrirliðabandið. Liðsfélagi hans Dani Alves tók við bandinu. „Ég mun ræða við hann sem landsliðsþjálfari en líka sem manneskja. Þetta snýst um mannasiði og viss gildi,“ sagði Tite á blaðamannafundi þegar þetta var tilkynnt í lok maí. Í byrjun þess mánaðar sagði Tuchel að Neymar hefði ekki það sem þarf til þess að verða fyrirliði PSG.

Í vikunni meiddist hann svo enn á ný og missir af Copa America. Alls hefur Neymar meiðst 18 sinnum eftir HM 2014 og misst þá af 71 leik fyrir félags- og landslið.

Neymar fékk langt bann fyrir að hafa móðgað dómara eftir leik sinna manna í PSG og Man. Utd.

Nauðgun eða fjárkúgun?

Enn á ný er Neymar kominn á síður blaðanna fyrir eitthvað allt annað en gæði sín í fótbolta. Brasilísk kona, Najila Trindade Mendes de Souza, hefur stigið fram og sagt að hann hafi nauðgað sér. Neymar brást við með því að segja að konan væri að reyna að kúga af honum fé. Hann hefur birt skilaboð þeirra á milli sem eiga að sýna að allt sem gerðist var með samþykki. Konan hefur hins vegar sagt að ef Neymar verði með einhverja stæla eigi hún árásina á myndbandi og muni setja það í dreifingu. Viðtal við konuna mun birtast í heild sinni á mánudag og brot af myndbandinu er þegar komið í dreifingu.

Neymar setti sjö mínútna langt myndband á Instagram þar sem hann fór yfir sína hlið á málinu og sýndi konuna berbrjósta en huldi andlit hennar og nafn. Það gæti þó verið saknæmt því samkvæmt brasilískum lögum er bannað að sýna einhvern nakinn án samþykkis. Eru viðurlögin eitt til fimm ára fangelsi.

Lögfræðistofa konunnar hefur sagt að kynlífið hafi verið með samþykki beggja en ekki ofbeldið. Fjölmiðlar í Brasilíu sögðu svo frá því að að lögfræðistofan, Fernandes e Abreu, sem hefði séð um hennar mál, hefði svo sagt upp viðskiptum við hana eftir að í ljós kom að það voru gallar í framburði hennar og að hegðun hennar hefði verið á skjön við siðferðileg gildi stofunnar.

Faðir Neymar sagði að myndbandið hefði verið nauðsynlegt til að sonurinn gæti varið sig. „Við áttum engra kosta völ. Insta­gram tók myndbandið af veggnum vegna ritskoðunar. Hann huldi nafn hennar en það er betra að vera dæmdur fyrir internetglæp en nauðgun. Við þurftum að segja sannleikann og sýna hvað gerðist því þetta er fjárkúgun og við áttum hreinlega ekki von á því að konan myndi fara til lögreglunnar.“ 

Í Instagram-myndbandinu sagði Neymar að hann tæki fréttunum ekki af léttúð. „Hver sá sem þekkir mig veit að ég myndi aldrei gera slíkt. Það sem gerðist þennan dag var á milli manns og konu og innan fjögurra veggja. En ég var plataður í gildru sem ég féll í. Við skiptumst á skilaboðum áfram og hún bað mig um að koma með gjafir handa syni sínum þegar við ætluðum að hittast í annað skipti.“

Skilaboðin sem hann sýndi í myndbandinu af samskiptum þeirra sýna að Neymar biður hana að koma til Parísar. Hún samþykkir það og keypti hann flugmiða handa henni. Bæði skrifa þau nokkuð augljóst að kynlíf muni eiga sér stað. „Ég er á við fjórar konur og allar fjórar vilja veita þér unað... engar áhyggjur,“ skrifar konan. Daginn eftir að nauðgunin á að hafa átt sér stað spyr konan hvort það sé einhver tími til að hittast einu sinni enn. Samskiptin virtust eðlileg – eins eðlileg og hægt er að kalla þau.

Brasilíska lögreglan hefur lofað að taka ásökunum ekki af léttúð og rannsaka þær í þaula en Neymar er stærsta íþróttastjarna landsins og dýrkaður og dáður af landsmönnum – þó að margir séu komnir með nóg af lífsstíl hans, meiðslum og vandræðum utan vallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×