Fótbolti

Gylfi: Við ætlum okkur á annað stórmót

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson segir að íslenska landsliðið hafi oft spilað betur en í sigrinum gegn Albaníu á heimavelli í kvöld. Það mikilvægasta sé þó að stigin þrjú komu í hús.

„Ég held að stigin þrjú og markið hans Jóa hafi staðið upp úr. Það er ekkert margt annað. Við vörðumst ágætlega,“ sagði Gylfi í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í leikslok.

„Þeir áttu nokkur hálffæri en heilt yfir gerðum við það sem við þurftum og skoruðum eitt mark og héldum hreinu. Við gerðum það en auðvitað viljum við spila betur en þetta,“ en má kalla þetta iðnaðarsigur?

„Já, algjörlega. Þetta er ekki fallegasti sigurinn okkar en það sem skiptir máli er að við erum nú búnir að vinna tvo leiki af þremur. Við héldum hreinu og erum í ágætis aðstæðum að geta verið heima næstu daga og hvílt okkur heima á meðan Tyrkirnir ferðast.“

Gylfi segir að liðið hafi verið vel meðvitað um það að það þyrfti að vinna leikina gegn Albaníu og Tyrklandi í þessum júníglugga vilji liðið komast á þriðja stórmótið.

„Við töluðum um það í þessari viku og öllum undirbúningnum að þetta eru tveir leikir sem við verðum að vinna. Í gegnum síðustu undankeppnir höfum við verið að vinna á heimavelli gegn liðunum í kringum okkur.“

„Hvort að það sé meiri pressa á okkur núna en áður, ég veit það ekki. Við setjum mjög mikla pressu á okkur sjálfir. Við ætlum okkur á annað stórmót. Þetta eru leikir sem við verðum að vinna ef við ætlum að eiga möguleika.“

Hvað þarf liðið að bæta fyrir þriðjudaginn?

„Sóknarleikinn. Við sköpuðum ekkert gífurlega mikið af færum. Hálffæri hér og þar. Föstu leikatriðin þurfum við að bæta. Við höfum verið sterkir í þeim í gegnum árin og nokkrar spyrnur hjá mér voru lélegar og ein hjá Jóa.“

„Varnarleikurinn var ágætur. Þeir voru ekkert frábærir fram á við en við vörðumst ágætlega sem lið. Við leyfðum þeim að hafa boltann og voru ekkert að skapa sér mikið. Við þurfum að bæta okkur sóknarlega.“

Gylfi varð fyrir hnjaski tvisvar í leiknum en segir standið á sér fínt.

„Þetta er hluti af leiknum. Maður verður búinn að tjasla sér saman fyrir næsta leik og verður klár þá,“ sagði FH-ingurinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×