Fótbolti

Hamrén vildi ekki segja að Hannes væri markvörður númer eitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson eftir leikinn á móti Argentínu á HM síðasta sumar.
Hannes Þór Halldórsson eftir leikinn á móti Argentínu á HM síðasta sumar. Vísir/Getty
Erik Hamrén, þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta, var ekki tilbúinn að gefa það út að Hannes Þór Halldórsson væri enn þá markvörður númer eitt hjá íslenska landsliðinu

Hannes Þór Halldórsson hefur verið aðalmarkvörður Íslands í mörg ár og fyrir síðasta landsliðsval var Erik Hamrén tilbúinn að gefa það út að Hannes væri markvörður númer eitt í liðinu þrátt fyrir að spila lítið með félagsliði sínu.

Hannes spilaði því leikina á móti Andorra og Frakklandi í undankeppninni í marsmánuði.

Erik Hamrén var aftur á móti ekki tilbúinn að endurtaka slíka yfirlýsingu á blaðamannafundi í dag þegar hann tilkynnti hópinn sinn fyrir leiki við Albaníu og Tyrkland í undankeppni EM 2020.

Hannes Halldórsson er einn af þremur markvörðum hópsins en hinir eru Rúnar Alex Rúnarsson og Ögmundur Kristinsson.

Hannes er kominn heim eftir að hafa fengið lítið að spila með Qarabag og spilar hann nú með Íslandsmeisturum Vals.

Hannes byrjaði ekki vel í Pepsi Max deildinni en átti mjög góðan leik í síðasta leik Valsliðsins.

Rúnar Alex Rúnarsson og Ögmundur Kristinsson hafa báðir verið að standa sig vel með sínum liðum, Rúnar Alex með Dijon í Frakklandi og Ögmundur með Larissa í Grikklandi.

Það er ljóst á þessu að það verður nokkur spenna í loftinu um hver þessara þriggja fær að byrja í markinu á móti Albaníu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×