Erlent

Árásarmaðurinn í Lyon lýsti yfir stuðningi við íslamska ríkið

Andri Eysteinsson skrifar
Frá aðgerðum við heimili mannsins í Lyon 27. maí síðastliðinn.
Frá aðgerðum við heimili mannsins í Lyon 27. maí síðastliðinn. Getty/ NurPhoto
Karlmaður sem grunaður er um að hafa staðið að baki sprengingu í frönsku borginni Lyon í síðustu viku hefur lýst yfir stuðningi sínum við íslamska ríkið, saksóknari gagn-hryðjuverkasveitar Frakklands, Remy Heitz greindi frá þessu fyrr í dag. AP greinir frá.

Fjórtán almennir borgarar særðust eftir að sprengja sprakk við göngugötu í miðborg Lyon í dagrenningu, 24. maí síðastliðinn. Sprengjan sprakk fyrir utan bakarí og er talið að hún hafi innihaldið nagla, skrúfur og aðra hluti til þess að valda sem mestum skaða. Flestir hinnar slösuðu eru þó sagðir hafa hlotið minniháttar meiðsl.

Lögreglan í Lyon hafði hendur í hári hins 24 ára gamla Mohamed Hichem M. síðasta mánudag. Hichem er sagður hafa komið til Frakklands sem ferðamaður árið 2017 en ekki yfirgefið landið á tilskyldum tíma. Þjóðerni hans liggur ekki fyrir en fjölmiðlar ytra segja Mohamed vera alsírskan ríkisborgara. Hann hefur verið ákærður fyrir morðtilraun, hryðjuverkastarfsemi og fyrir að hafa smíðað sprengju með annarlegum tilgangi.

Við yfirheyrslur neitaði Mohamed Hichem í fyrstu að hann væri viðriðinn sprengjuárásina en kvaðst seinna trúr íslamska ríkinu og viðurkenndi að hafa varpað sprengjunni fyrir utan bakaríið, ásamt því að hafa sett hana saman. Hichem var handtekinn ásamt foreldrum sínum og bróður en þeim var sleppt eftir yfirheyrslur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×