Einar vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni nú skömmu eftir hádegi og deildi færslu frá manni að nafni Daher Dahli sem samkvæmt Facebook er ísraelskur og búsettur í Tel Aviv.
Matthías Tryggvi staðfesti í samtali við Vísi að þremenningarnir hafi setið aftast fyrir miðju á leiðinni til London en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
Í færslu Dahli birtir hann skjáskot af Facebook sem virðist vera tekið úr grúppu starfsmanna EL AL á flugvellinum í Tel Aviv.
Við færsluna segir Dahli:
„Starfsfólk EL AL á flugvellinum montar sig af því að hafa úthlutað íslensku hljómsveitinni Hatara verstu sætunum í vélinni (aftast fyrir miðju og þeir sitja ekki saman). Starfsfólkið segir að þetta sé það sem þeir fái fyrir það að mótmæla hernámi og mannréttindabrotum Ísraela.“
Eins og áður segir deildi Einar færslu Dahli á sinni Facebook-síðu. Hann þakkar þar ísraelska flugfélaginu fyrir „sérmeðferðina“ og merkir það svo með myllumerkinu að svölu krakkarnir sitji aftast.