Lífið samstarf

Sigurvegari World Class barþjónakeppninnar fær sér aldrei fleiri en einn

Ölgerðin kynnir
Sóley Kristjánsdóttir, Jónmundur Þorsteinsson, sigurvegari kvöldsins og Hlynur Björnsson framkvæmdastjóri keppninnar.
Sóley Kristjánsdóttir, Jónmundur Þorsteinsson, sigurvegari kvöldsins og Hlynur Björnsson framkvæmdastjóri keppninnar. Jón Ragnar Jónsson hjá Ketchup Creative
Jónmundur Þorsteinsson rúllaði upp World Class barþjónakeppninni sem fram fór á Kjarvalsstöðum síðastliðinn fimmtudag. Í framhaldinu mun hann keppa fyrir Íslands hönd í World Class keppninni sem fram fer í Glasgow í september. Þar munu barþjónar frá um 60 löndum etja kappi og stendur keppnin yfir í sex daga.

Jónmundur er margverðlaunaður barþjónn og segir góða kokteila ekki hrista fram úr erminni, mikill undirbúningur liggi að baki góðum árangri og stífar æfingar.

Jónmundur hefur hlotið einna flest verðlaun í faginu á Íslandi.
„Ég æfi mig í hverri viku og reyni alltaf að læra meira og bæta mig. Það liggur miklu meiri undirbúningur á bak við þetta en ég þori að viðurkenna. Kærastan mín veit orðið meira um kokteila en færustu barþjónar landsins, ég tala ekki um annað og er alltaf að henda í eitthvað,“ segir hann enda uppsker hann árangur erfiðisins, sigurinn á Kjarvalsstöðum segir hann elleftu verðlaunin sem hann hlýtur.  „Ég keppi mjög oft og tapa frekar sjaldan,“ segir hann hress.

Úrslitakeppnin á Kjarvalsstöðum var lokahnykkurinn í löngu ferli en World Class keppnin hefur staðið yfir í níu mánuði. Keppendur fá ýmiskonar áskoranir, til dæmis að para drykki við mat og blindsmakka drykki og greina nákvæmt innihald þeirra. Að lokum kepptu fjórir barþjónar til úrslita,  Teitur Ridderman Schiöth frá Pablo Discobar, Víkingur Þorsteinsson frá Apótekinu, Sævar Helgi Örnólfsson frá Sushi Social og Jónmundur en hann er einnig barþjónn á Apótekinu.

Loka áskorunin var að búa til átta kokteila á átta mínútum og útskýra þá í þaula á meðan. „Við fengum tvo tíma til að undirbúa kokteilana og svo átta mínútur í að búa þá alla til. Þetta var ótrúlega skemmtilegt.“

Eins og Michelin stjarna

Jónmundur verður fjórði barþjónninn sem keppir fyrir Ísland í World Class barþjónakeppninni en í fyrra náði Orri Páll Vilhjálmsson frábærum árangri og komst áfram í topp 20.  World Class barþjónakeppnin hefur verið mikil lyftistöng fyrir íslenska veitingamenningu en henni má líka við Michelin stjörnu í matreiðslubransanum.  Jónmundur segir barmenningu hafa breyst mikið á Íslandi síðustu árin og einnig barþjónamenninguna. 

Að lokum kepptu fjórir barþjónar til úrslita, Teitur Ridderman Schiöth frá Pablo Discobar, Víkingur Þorsteinsson frá Apótekinu, Sævar Helgi Örnólfsson frá Sushi Social og Jónmundur.
„Núna er það „karríer“ að vera barþjónn, ekki bara helgardjobb. Þetta er mun sérhæfðara starf en margir halda og á miklu meira skylt við matreiðslu en þjónustustarf. Barhegðun fólks hefur líka breyst síðustu árin og fólk fer ekki á barinn til þess að hella í sig, heldur vill upplifun. Það vill smakka nýtt bragð og pælir miklu meira í því hvað það drekkur og vill vita úr hverju kokteilarnir eru gerðir. Á Apótek sækjum við barþjónarnir líka innblástur til kokkanna í eldhúsinu.“

Fær sér bara einn

Hver skyldi uppáhalds kokteill Jónmundar vera? „Sjálfur fer ég reyndar ekki oft á barinn en þegar ég slysast þangað inn panta ég helst beiskan og sterkan drykk, annað hvort gin og tónik, eða Negroni. Ég fæ mér yfirleitt bara einn. Ég drekk ekki til að verða fullur,“ segir Jónmundur. Honum leiðist aldrei í vinnunni. „Það er adrenalínkikkið, hraðinn og keyrslan fyrir aftan barinn sem gerir þetta svo ótrúlega skemmtilegt. Þetta starf er augljóslega ekki fyrir hvern sem er og oft mikið álag en í lok hverrar einustu vaktar finn ég vel af hverju ég er í þessu starfi. Á Apótek erum við eins og stór fjölskylda og miklir vinir.“

Dómnefndina skipuðu Orri Páll Vilhjálmsson, Andri Davíð Pétursson, Jónas Heiðarr og Kevin Patnode.

Þessi kynning er unnin í samstarfi við Ölgerðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.