Erlent

Kynferðisbrot og níð á þingi Nýja-Sjálands

Samúel Karl Ólason skrifar
Þinghúsið í Wellington
Þinghúsið í Wellington Vísir/getty
Starfsmenn þings Nýja-Sjálands hafa orðið fyrir alvarlegum kynferðisbrotum, áreiti og níði. Fjórtán aðilar sem vinna þar segjast hafa orðið fyrir kynferðisbroti samkvæmt úttekt sem hefur verið framkvæmd innan veggja þingsins. Þrjár af alvarlegustu ásökununum snúa að einum manni.

Trevor Mallard, forseti þingsins, segist telja að maðurinn vinni enn hjá þinginu sem ekki er talinn vera þingmaður. Þá segir hann ástandið ólíðandi.

„Við erum að tala um alvarleg kynferðisbrot. Sem eru, fyrir mér, nauðgun. Við það að lesa skýrsluna fannst mér eins og þessi aðili væri enn starfandi á þinginu,“ sagði Mallard samkvæmt BBC.



Þar að auki sögðust 54 starfsmenn þingsins sem tóku þátt í úttektinni hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni og 50 sögðust hafa verið snertir á óviðeiganda hátt. Þá lýsti skýrslan umfangsmiklu einelti innan veggja þingsins.

Jacinda Adern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, fundaði með Mallard og leiðtogum þingflokka í dag en eftir fundinn sagði hún mikilvægt að tryggja starfsumhverfi á þinginu þar sem allir nytu virðingar og sæmdar.

Í kjölfar ummæla Mallard um að mögulega ynni nauðgari á þinginu hefur stjórnarandstaðan kallað eftir því að hann skýri ummæli sín og lögregla verði kölluð til. Það er hins vegar upp á þá sem tóku þátt í úttektinni og sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi komið að fara til lögreglunnar samkvæmt Adern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×