Erlent

Mugabe í fjárhagsörðugleikum

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Robert og Grace Mugabe, fyrrverandi forsetahjón Simbabve.
Robert og Grace Mugabe, fyrrverandi forsetahjón Simbabve.
Robert Mugabe, fyrrverandi forseti Simbabve, hefur auglýst fimm þreskivélar auk annarra framleiðslutækja til sölu á uppboði. Frá þessu var greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Auglýsingin birtist hjá uppboðsstofu þar sem fram kemur að minnst fjörutíu bifreiða hans séu til sölu, þar á meðal glæsibifreið og fimm Toyota Hilux pallbílar.

Mugabe var komið frá valdastóli árið 2017 þegar herinn rændi völdum.

Spekingar þar í landi segja söluna vera merki um að viðskiptaveldi fjölskyldunnar eigi í fjárhagslegum erfiðleikum, en meðal eigna Mugabe eru 21 sveitabýli.

Í auglýsingunni kemur fram að uppboðið verði opið öllum og verði haldið á Gushungo kúabúinu sem er í eigu Mugabe á sunnudag.

Mugabe fjölskyldan tók sér landið frá hvítum landeigendum, þegar ríkið setti af stað eignaumbætur sem hafa verið umdeildar. Árið 2015 bar Grace Mugabe út íbúa nærliggjandi þorps sem höfðu komið sér fyrir á landinu.

Simbabveska dagblaðið Herald sagði ljóst að Mugabe hafi sett vélarnar á sölu vegna málsókna sem viðskiptaveldi hans hefur sætt vegna ógreiddra skulda.

Breska ríkisútvarpið BBC tók viðtal við nokkra íbúa þorpsins sem Grace bar út sem hægt er að horfa á hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×