Lífið

Reiddist eftir að tilkynnt var um aðra þáttaröð

Sylvía Hall skrifar
Constance Wu.
Constance Wu. Vísir/Getty
Leikkonan Constance Wu kom mörgum aðdáendum í opna skjöldu eftir að hún birti færslur á Twitter-síðu sinni þar sem hún lýsti yfir óánægju með að fleiri þáttaraðir af þætti hennar, Fresh Off The Boat, yrðu gerðar.

Tilkynnt var í gær að ráðist yrði í framleiðslu á sjöttu þáttaröð grínþáttanna sem sýndir eru á ABC en Wu fer með eitt aðalhlutverkanna. Þættirnir fjalla um fjölskyldu frá Taívan sem flytur til Bandaríkjanna. 

 







„Ég er svo leið akkúrat núna að ég er bókstaflega grátandi,“ skrifaði Wu í færslunni. Þá skildi hún eftir athugasemd við mynd á Instagram-síðu þáttanna þar sem hún lýsti einnig yfir óánægju sinni.

Fylgjendur leikkonunnar voru margir hverjir ósáttir við viðbrögð hennar og bentu henni á að margir aðrir leikarar höfðu ekki orðið svo lánsamir að þættir þeirra fengu aðra þáttaröð en sex þáttaraðir stöðvarinnar voru teknar af dagskrá í tilkynningu gærdagsins.





„Mér þykir það leitt að þú sért leið yfir því að vera í sjónvarpi og græða á því pening. Það er erfitt að heyra einhvern kvarta undan því,“ skrifaði einn notandi við færslu leikkonunnar.

Leikkonan baðst afsökunar á viðbrögðum sínum á Twitter-síðu sinni í gær. Hún sagðist hafa átt erfiðan dag og því hafi tímasetningin verið óheppileg. Hún sé þakklát fyrir þættina og alla þá sem koma að gerð þeirra.





Í dag birti hún svo yfirlýsingu þar sem hún viðurkenndi að hún var ekki sátt við að þættirnir myndu snúa aftur. Vegna þess þyrfti hún að hafna öðru verkefni sem hefði verið „krefjandi áskorun“ fyrir hana sem listamann.

„Fólk getur verið á báðum áttum með hluti – það er hluti af því að vera manneskja. Þannig get ég bæði elskað þáttinn/leikarana/starfsfólkið en á sama tíma verið leið yfir því að hafa misst annað tækifæri,“ skrifar leikkonan í yfirlýsingunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×