Erlent

Bensín­sprengjum kastað á skrif­stofu for­sætis­ráð­herrans

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla beitti táragasi og vatnsbyssum á mótmælendur í Tírana.
Lögregla beitti táragasi og vatnsbyssum á mótmælendur í Tírana. Getty
Þúsundir Albana hópuðust út á götur höfuðborgarinnar Tírana í gærkvöldi þar sem bensínsprengjum, málningu og steinum var kastað á húsnæði skrifstofu forsætisráðherrans Edi Rama og þinghúsinu.

Mótmæli hafa staðið í landinu síðustu þrjá mánuði þar sem stjórnarandstæðingar hafa mótmælt Rama sem þeir saka um kosningasvindl og spillingu. Fara þeir fram á nýjar kosningar í landinu og hafa krafist „evrópskrar Albaníu“ líkt og gert var í mótmælunum gegn kommúnistastjórninni í byrjun tíunda áratugarins.

Lulzim Basha, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur hvatt mótmælendur til að halda mótmælum sínum áfram þar til Rama segir af sér.

Lögregla beitti táragasi og vatnsbyssum á mótmælendur og hafa borist fréttir af því að tugir lögreglumanna og mótmælenda hafi slasast í átökum.

Mótmælaaðgerðirnar gegn Edi Rama forsætisráðherra hafa staðið í um þrjá mánuði.Getty
Andstæðingar Rama forsætisráðherra krefjast þess að stjórnvöld leggi aukinn kraft í að vinna að ESB-aðild landsins. Viðræðum um mögulega aðild hefur verið frestað þar sem framkvæmdastjórn ESB hefur beint því til albanskra stjórnvalda að nauðsynlegt sé að taka á víðtækri spillingu landinu áður en þeim verður fram haldið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×