Innlent

Sjúkraflutningamenn biðu fyrir utan á meðan Gísla blæddi út

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi í Mehamn.
Frá vettvangi í Mehamn. TV2/Christoffer Robin Jensen
Sjúkraflutningamenn neyddust til að bíða fyrir utan heimili Gísla Þórs Þórarinssonar í Mehamn í Noregi í fjörutíu mínútur á meðan honum blæddi út. Þeir gátu ekki farið inn í húsið fyrr en lögregluþjónar mættu á vettvang, samkvæmt NRK. Gísli hafði verið skotinn í lærið og er hálfbróðir hans grunaður um að hafa skotið hann þann 27. apríl.

Vegna öryggisreglna sjúkraflutningamanna verða þeir að bíða eftir að lögregla tryggi vettvang í málum sem þessum þar sem skotvopn koma við sögu. Í þessu tilfelli þurftu lögregluþjónar að koma frá bænum Kjøllefjord sem er í um hálftíma fjarlægð frá Mehamn í Finnmörk þar sem Gísli bjó.

Þegar lögregluþjóna bar að garði var Gísli enn á lífi en ekki tókst að bjarga lífi hans.

Sjá einnig: Gísli lést eftir að hann var skotinn í lærið

Ola Yttre, yfirmaður samtaka sjúkraflutningamanna í Noregi, segir við NRK að í tilfellum þar sem lögreglan sé síðustu á vettvang geti aðstæður verið verulega slæmar fyrir sjúkraflutningamenn. Sérstaklega viti þeir af fólki sem sé í hættu og þurfi aðstoð. Hann segir þetta hafa leitt til þess að sjúkraflutningamenn brjóti starfsreglur og hefji störf á ótryggðum vettvangi og slíkum tilfellum hafi farið fjölgandi.

NRK segir að það hafi tekið lögregluþjóna 53 mínútur að komast á vettvang skotárásarinnar eftir að tilkynning barst. Þar að auki tók það nokkrar mínútur að tryggja vettvanginn og því leið í raun um klukkustund frá því að tilkynning barst og sjúkraflutningamenn gátu byrjað að aðstoða Gísla.


Tengdar fréttir

Gunnar lýsti átökum við bróður sinn í yfirheyrslu hjá lögreglu

Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem grunaður er um að hafa skotið Gísla Þór Þórarinsson, hálfbróður sinn, til bana síðastliðinn laugardag í Mehamn í Norður-Noregi, lýsti því í yfirheyrslu hjá lögreglu í gær að það hefði komið til átaka á milli þeirra bræðra eftir að Gunnar fór heim til Gísla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×