Lífið

Gæti reynst Hatara vel að Úkraína dró framlag sitt úr keppni

Kolbeinn Tumi Daðason í Tel Aviv skrifar
Maruv á sviðinu í Kænugarði í undankeppnini í Úkraínu í febrúar. Lagið naut mikilla vinsælda en keppir ekki í Tel Aviv.
Maruv á sviðinu í Kænugarði í undankeppnini í Úkraínu í febrúar. Lagið naut mikilla vinsælda en keppir ekki í Tel Aviv. Getty/Pavlo Gonchar
Úkraína er ekki á meðal keppenda í Eurovision í ár vegna pólitísks ágreinings heima fyrir sem rekja má til innlimunar Rússa á Krímskaga árið 2014.

Það var söngkonan Maruv sem stóð uppi sem sigurvegari í undankeppninni í Úkraínu. Hún dró lagið í framhaldinu úr keppni þar sem hún sagðist ekki vilja vera notuð sem pólitískt tól. Úkraína leitaði til þeirra sem höfnuðu í öðru og þriðja sæti keppninnar en viðkomandi svöruðu ekki kallinu.

Fyrir vikið var ákveðið að draga Úkraínu úr keppni í ár.

Maruv var beðin um að skrifa undir samning þar sem henni var meinað að koma fram á tónleikum í Rússlandi í aðdraganda Eurovision. Hún var tilbúin að gangast undir það en segir aðra hluti í samkomulaginu hafa verið þess eðlis að hún gæti ekki skrifað undir.

„Ég er listamaður, ekki tól til að nota á pólitíska sviðinu,“ sagði Maruv í yfirlýsingu.

Atriði Maruv á ýmislegt sameiginlegt með lagi Hatara. Lagið er verulega ögrandi. Dansarar spila lykilhlutverk í atriðinu og sömuleiðis leður og keðjur. Sem Hatari nýtir sömuleiðis.

BBC ræddi við Eurovision-sérfræðinginn Dr. Paul Jordan í febrúar þegar lagið var dregið úr keppni. Hann er með doktorsgráðu þar sem lokaverkefni hans fjallaði um þátttöku Úkraínu í Eurovision. Hann taldi framlag Úkraínu líklegt til afreka.

„Það hefur lítið verið rætt um framlögin sem valin hafa verið til þessa, en fólk hefur dásamað framlag Úkraínu,“ sagði Jordan.

„Það er afar ögrandi. Ég held að lagið hefði átt góða möguleika á að gera vel í keppninni.“

Ögrandi? Leður? Keðjur? Dansarar? Ljóst er að þeir áhorfendur sem tengja við fyrrnefnda hluti greiða Úkraínu ekki atkvæði sitt í ár. Hatari býður upp á svipað konsept þótt skilaboðin í textum laganna tveggja séu gjörólík.

Auk þess þýðir fjarvera Úkraínu að það er einu lagi færra í riðli Íslands þar sem sautján berjast um að komast í úrslit, en ekki átján eins og í hinum riðlinum. Eitthvað sem gæti komið Hatara vel.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.