Laurence flutti lagið Arcade í Expo-höllinni í Tel Aviv í gær og það á seinna undanúrslitakvöldinu í Eurovision og flaug hreinlega upp úr riðlinum.
Laurence dvelur á Dan Panorama hótelinu við ströndina í Tel Aviv, rétt eins og íslenski hópurinn og fleiri þjóðir.
Þegar Laurence kom á staðinn rétt eftir klukkan tvö að staðartíma í nótt biðu fjölmargir Hollendingar í anddyri hótelsins og mikil fagnaðarlæti brutust út þegar hann gekk inn í húsið.

Maltverjar fögnuðu einnig á hótelinu en Malta var síðasta þjóðin sem komst áfram í úrslit í gær. Hópurinn hafði greinilega ekki fengið mikla næringu í höllinni en Maltverjar pöntuðu sér um tuttugu Domino´s pizzur á barinn.
Í kvöld fer fram dómararennsli í Expo-höllinni og síðan er aðalkeppnin á morgun. Þær þjóðir sem komust áfram í gær eru því að koma fram fjögur kvöld í röð sem gæti tekið á, bæði líkamlega og andlega. Íslenski hópurinn hefur nú fengið tvo daga í frí.