Duncan var spurður að því á blaðamannafundi eftir seinni undanúrslitariðilinn í gær hvernig tilfinning það væri að vera spáð sigri.
„Þetta er ólýsanleg tilfinning. Ég segi þetta aftur og aftur en það er mikill heiður þegar fólk vill sjá þig vinna. Það eru bestu mögulegu viðbrögð þegar þú ert í Eurovision,“ sagði Laurence.
Segja má að stjarna Laurence sé að skína í fyrsta skipti. Hann hefur keppt í The Voice og samið smella sem náði vinsældum í Suður-Kóreu en hvað Holland og heimalandið varðar er Laurence fyrst að verða frægur.
„Áður en þetta byrjaði allt saman var ég lagahöfundur sem samdi lög í svefnherberginu. Nú get ég sýnt mig sem listamann en einnig manneskju. Ég er meira en listamaður. Ég er manneskja, ég er tvíkynhneigður, ég er tónlistarmaður og ég stend fyrir hluti. Ég er stoltur af því að fá tækifæri til að sýna hver og hvað ég er.“
Laurence á kærasta en hann greindi frá tvíkynhneigð sinni fyrir tveimur árum.
„Það var besta ákvörðun mín í lífinu. Ekki af því ég vildi geta leikið mér bæði með stelpum og strákum, ekki af því ég get ekki valið á milli heldur algörlega öfugt. Val mitt er skýrt. Ég verð ástfanginn af manneskju. Mikið er ég ánægður að hafa fundið þá manneskju fyrir tveimur mánuðum,“ sagði Duncan í viðtali í janúar.