Enski boltinn

Kompany verður spilandi þjálfari hjá gamla félaginu sínu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kompany lyftir enska bikarnum eftir sigurinn á Watford á Wembley í gær.
Kompany lyftir enska bikarnum eftir sigurinn á Watford á Wembley í gær. vísir/getty
Vincent Kompany, sem tilkynnti um brottför sína frá Manchester City í morgun, hefur verið ráðinn spilandi þjálfari Anderlecht.

Kompany hóf ferilinn með Anderlecht og lék með liðinu til ársins 2006 þegar hann fór til Hamburg. Tveimur árum síðar keypti City hann. Þar lék Kompany í ellefu ár. Hann lék sinn síðasta leik fyrir City þegar liðið varð bikarmeistari eftir 6-0 sigur á Watford í gær.

Kompany, sem er 33 ára, gerði þriggja ára samning við Anderlecht sem endaði í 4. sæti belgísku úrvalsdeildarinnar í vetur. Liðið er svo í 6. sæti úrslitariðils um belgíska meistaratitilinn. Anderlecht hefur 34 sinnum orðið belgískur meistari, síðast 2017.

Í opnu bréfi á Facebook lofar Kompany að Anderlecht muni spila sóknarbolta undir hans stjórn, ekki ósvipaðan og City hefur gert síðan Pep Guardiola tók við liðinu.

„Man City spilar fótbolta sem ég vil spila. Það er fótbolti sem ég vil kenna og sjá spila,“ skrifar Kompany.

„Ég vil deila þekkingu minni með næstu kynslóðum af fjólubláum Anderlecht-mönnum. Með því set ég smá Manchester í hjarta Belgíu.“






Tengdar fréttir

City bikarmeistari eftir stórsigur

Manchester City er enskur bikarmeistari og fyrsta karlaliðið í sögunni til þess að vinna ensku þrennuna eftir öruggan sigur á Watford í bikarúrslitaleiknum á Wembley í dag.

Guardiola: Við verðum að bæta okkur

Pep Guardiola gerði það sem enginn knattspyrnustjóri hefur gert áður á Englandi í dag, hann stýrði Manchester City til ensku þrennunnar með sigri í bikarúrslitunum gegn Watford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×